Ef ásakanirnar á hendur Samherja reynast réttar þá er það grafalvarlegt mál. Mútugreiðslur og arðrán eru ömurlegur glæpir og ef Samherji verður fundinn sekur ætti fyrirtækið að sjá sóma sinn í að skila namibísku þjóðinni þeim hagnaði sem fyrirtækið hefur haft upp úr veiðunum.

En fyrst þarf að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvað gerðist. Dómstóll götunnar dugar hér skammt, við búum í réttarríki og allir eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð. En þetta lítur illa út og krefst skýringa.

Stjórnmálamenn ættu að gæta sín við svona aðstæður. Dómstólar sjá um að kveða upp sekt eða sakleysi og það er t.d. ekki í verkahring alþingismanna að krefjast kyrrsetningar eigna eins og Samfylkingin gerði nokkrum klukkustundum eftir að málið kom fram.

Sá málflutningur Samfylkingarinnar að málið kalli á að fiskveiðistjórnunarkerfinu verði kollvarpað á Íslandi er fráleitur. Það er sjálfsagt að rökræða það kerfi en að meint lögbrot erlendis kalli á uppstokkun, lýsir veikri málefnastöðu. Enn síður leiða þessir mögulegu glæpir til þess að stjórnarskrá landsins sé hent á haugana.

En þessi popúlísku upphlaup Samfylkingarinnar eru skiljanleg, flokkurinn er aðallega að berjast við Pírata um hugmyndafræðilega forystu meðal vinstri manna í ójafnvægi.

Ágúst Ólafur Ágústsson fullyrti um daginn að ríkisstjórnin hefði lækkað auðlindaskattinn á sjávarútveginn. Í ljós kom að þetta var ósatt hjá Ágústi og án efa vissi hann betur, en það hljómaði bara vel.

En svo blöskraði Pírötunum.

Björn Leví tók Ágúst á hné sér, flengdi hann opinberlega fyrir ósannindin og útskýrði fyrir honum að svona gerðu menn ekki. Vonandi lærðu Ágúst Ólafur og Samfylkingin Píratalexíuna sína.