Fyrir um ári skrifaði ég bakþanka sem bar yfirskriftina "Þarftu í raun aðstoð?". Var þar vísað til þess að við værum lánsöm sem þjóð að eiga mörg öflug fyrirtæki sem þyrftu ekki aðstoð vegna covid enda ættu stöndug fyrirtæki að leita fyrst í eigin sjóði þegar gæfi á bátinn. Það væri einfaldlega hneisa ef öflug fyrirtæki leituðu í opinbera sjóði við fyrstu ágjöf.

Sem atvinnurekandi man ég þó enn angistina sem reið yfir íslensk atvinnulíf fyrstu vikur covid - það var eins og kippt hefði verið í handbremsuna og óvissan algjör. Við þær aðstæður gripu mörg fyrirtæki í allar útréttar hendur sem hið opinbera bauð og hlutabótaleiðin varð vinsæl. Má staðhæfa að ekkert útspil ríkisstjórnarinnar hefur reynst eins gagnlegt enda væru mörg fyrirtæki farin í þrot og atvinnuleysi mun meira ef ekki hefði komið til þessa úrræðis.

Hins vegar kom snemma í ljós að áhrif covid urðu með öðrum hætti en margir héldu. Á meðan sumum atvinnugreinum var haldið á lífi í öndurvél og er enn blómstruðu aðrar. Fljótlega endurgreiddu því mörg fyrirtæki ríkinu enda reyndist þörfin á aðstoð lítil þegar upp var staðið. Nú þegar ársreikningar eru að birtast og með góðri afkomu í mörgum geirum má ætla að þeim fyrirtækjum fjölgi enn, sem munu endurgreiða það sem þau sannarlega reyndust ekki þurfa.

Endurgreiðsla fyrirtækja með góða afkomu er sjálfsögð enda fátt ömurlegra fyrir atvinnurekenda en að fá á sig stimpil pilsfaldakapitalista, sem er á móti ríkisútgjöldum þegar vel árar - en hleypur með hraði í fang ríkisins þegar illa árar. Úrræði hins opinbera er til að hjálpa fólki og fyrirtækjum í vanda – ekki öðrum.