Við höfum lært margt síðustu þrettán mánuði. Eitt af því sem ég geri oft í starfi mínu er að standa við kirkjudyr og taka kannski í tvö til þrjú hundruð hendur að loknu helgihaldi. Nú er það þannig að ég tek ekki í nokkra hönd nema með sárafáum undantekningum. Þegar það gerist fer ég rakleitt inn á bað til að þvo mér eins og skurðlæknir fyrir aðgerð.

Eitt af því sem hrjáir mörg sem glíma við þráhyggju er óttinn við að snerta hendur annarra ásamt sífelldum handþvotti sem veldur því að húðin verður þrútin og meidd. Því vitum við að það er ýmsum léttir að þurfa ekki að taka í hendur. Svo eru líka þau sem upplifa faðmlag sem óvelkomna snertingu. Þar er skynjun fólks ólík eftir persónuleika og lífsreynslu. Margt fólk lifir í sífelldri glímu varðandi persónumörk sín og því er sú uppstokkun á snertivenjum sem nú fer fram mörgum kærkomin. Persónumörk eru ósýnileg en þau eru mikilvæg og ber að virða. Kannski hefur þessi tími gert það að verkum að við munum í framtíðinni spyrja fólk hvort það kjósi handtak eða faðmlag. Það væri alls ekki slæm niðurstaða. Það sem mér getur þótt eðlilegt og jafnvel elskulegt geta önnur upplifað sem skaðlegar eða ögrandi aðstæður.

Umliðna mánuði höfum við þurft að skerpa innsæi okkar við að lesa úr augnaráði yfir andlitsgrímur, greina líkamstjáningu og raddblæ til þess að átta okkur á samferðafólkinu. Líklega hefur tilfinningagreind og félagslegt innsæi þjóðarinnar vaxið við þessar aðstæður og mörg fundið til léttis að þurfa ekki að taka handaböndum eða faðmlögum án þess að vera spurð. Það er nefnilega hægt að eiga falleg samskipti og innihaldsríka samveru með fólki þar sem líkamleg snerting kemur ekki við sögu.