Það er erfitt að gera sér almennilega grein fyrir því hversu hræddur maður á að vera við COVID-19 veiruna. Örugg leið til þess að fara fullkomlega yfirum af áhyggjum er að liggja yfir netfréttum, einkum eftir því sem fjær dregur því sem kallast mættu ábyrgir fjölmiðlar. Alls kyns kenningar og misvísandi tölfræði er á reiki og þegar óttinn byrjar að hreiðra um sig virðist gjarnan nærtækast að trúa helst því sem felur í sér mesta voðann.

Það er því skiljanlegt að þessa vikuna séu allir að tala um COVID-19 veiruna. Í síðustu viku voru hins vegar allir að tala um persónuleikapróf Íslenskrar erfðagreiningar og við fyrstu sýn virðist þetta ekkert tengjast. En persónuleikaprófið gæti veitt óvænta innsýn því í gegnum það tókst mörgum að læra sitthvað um sjálfa sig sem hugsanlega hefur áhrif á hversu miklar áhyggjur þeir ættu að hafa af veirum á borð við COVID-19. Vonandi þarf ekki að taka fram að þessar glannalegu kenningar hér ber því ekki að taka alvarlega, ólíkt leiðbeiningum sóttvarnalæknis sem allir ættu auðvitað að hlýða.

Þröngsýnir og ófélagslyndir sleppa vel

Reyndar má hafa ýmsar athugasemdir við framsetninguna á prófinu og einkum þýðingarnar á persónueiginleikunum sem gerð var tilraun til að mæla. Það kann til dæmis að virðast mjög eftirsóknarvert í prófinu að vera „víðsýnn“ enda er andstaða þess líklega sú að teljast þröngsýnn—sem verður seint talið til aðlaðandi persónukosta. En það sem raunverulega var verið að mæla í þeim hluta könnunarinnar kallast á ensku „openness“ og hefur meira að gera með það hversu mikinn áhuga fólk hefur á að prófa nýja hluti. Líklegt er að þeir sem hafa komist að því í prófinu að þeir séu „lágir í víðsýni“ séu ólíklegri til þess að fá smitsjúkdóma heldur en þeir sem stöðugt vilja vera að prófa eitthvað nýtt, kynnast nýjum hlutum og komast í tæri við nýtt og framandi fólk.

Annar angi persónuleikans sem gæti haft áhrif á smithættuna er það sem kallað var „úthverfa“ í prófinu og er þýðing á enska hugtakinu „extroversion“. Sá þáttur mælir í raun einna helst hversu vel fólki líður í fjölmenni. Í svona prófum gefur framsetningin gjarnan í skyn að eftirsóknarverðara sé að mælast félagslyndur en hlédrægur þótt augljóst sé að heimurinn þurfi á alls konar týpum af halda. Veröldin væri ekkert endilega betri ef allir væru eins hressir og Gísli Marteinn, eða ef allir væru eins hlédrægir og Megas. Best að hafa mátulega mikið af hvorri týpunni fyrir sig. En þegar kemur að smitsjúkdómum þá má líklega slá því föstu að „úthverfan“ geti komið mönnum í koll. Þeir sem enda einir úti í horni í öllum partíum geta líklega huggað sig við að það er ólíklegra að þeir fái COVID-19 veiruna heldur en stuðpinnarnir sem allir vilja heilsa upp á og hósta yfir.

Persónuleikaprófið sem tugþúsundir einstaklinga féllust á að taka, og margir birtu niðurstöður á netinu, lagði líka mælistiku á það hvort þátttakendur teldust vera samvinnuþýðir eða ekki. Reyndar má leiða líkur að því að þýðið kunni að vera skakkt, því ólíklegt er að allra ósamvinnuþýðasta fólkið láti sér detta í hug að taka prófið. Forstjórinn sjálfur, Kári Stefánsson, sagðist til dæmis sjálfur ekki hafa tekið prófið, enda líklegt að ósamvinnuþýði hans félli utan allra hefðbundinna skala. Í mælingu á þessum þætti má líka velta vöngum yfir framsetningunni, þar sem prófið gefur til kynna að það sé eftirsóknarverðara að vera samvinnuþýður heldur en ekki. Spurningarnar virtust nefnilega alveg eins geta gefið tilefni til þess að flokka fólk eftir því hvort það sé sjálfstætt í hugsun eða leiðitamt. Og það er ekki víst að eins margir hefðu gumað sig af góðri niðurstöðu í prófinu ef skilgreiningarnar hefðu verið þannig.

Fjórða persónuleikaeinkennið sem var mælt snerist um samviskusemi. Niðurstaðan virðist fyrst og fremst snúast um það hvort fólk standi við það sem það annars vegar segist ætla að gera og hins vegar það sem það ætlar sér. Þeir sem starfa í mikilli óvissu, glíma við verkkvíða—eða eiga það til að skrópa og skila ekki verkefnum—fá skráða lélega einkunn í gagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar fyrir samviskusemi.

Þegar kemur að hættunni á því að smitast af COVID-19 þá er líklegt að þeir sem neita að hlusta á fyrirmæli og ráðleggingar séu líklegri til að fá veiruna heldur en þeir sem hlýða ráðleggingum sérfræðinga; og eins hljóta þeir samviskusömu, að standa betur að vígi heldur en þeir sem eiga það til að gleyma að þvo sér um hendurnar.

Taugaveiklaðir líka?

Þegar maður hugsar út í persónueinkennin myndu eflaust flestir komast að þeirri niðurstöðu að hægt sé að finna kosti og galla við að vera hvar sem er á öllum skölum. Við þurfum bæði fylgjendur og leiðtoga, hlédrægt fólk og félagsmálatröll, kærulausa sveimhuga og samviskusamt nákvæmnisfólk; og líka varkára íhaldsmenn og ævintýragjarnt byltingarfólk.

En ein persónugerðin virðist þó við fyrstu sýn einungis fela í sér ókosti. Í prófi ÍE var það kallað „jafnaðargeð“ sem á ensku er nefnt „neuroticism“—og gæti líklega útlagst sem taugaveiklun. Það mun til dæmis vera algengt að listafólk mælist með mikla taugaveiklun, sem gæti gefið til kynna bæði frjótt ímyndunarafl og mikla meðlíðan—en almennt séð þvælist það frekar fyrir fólki ef það hefur ekki sæmilegt jafnaðargeð til þess að takast á við það sem lífið lætur að höndum bera. Þegar kemur að smitsjúkdómum gæti hins vegar verið undantekning á þessu. Sá sem af tilefnislítilli ofsahræðslu setur sjálfan sig í sóttkví er auðvitað mjög líklegur til þess að komast hjá því að smitast af veiru sem yfirvegaðra fólk er berskjaldað fyrir.

Út frá persónuleikaprófi Íslenskrar erfðagreiningar finnst mér líklegt að þeir sem eiga minnsta hættu á að smitast séu þeir sem flokkuðust sem ómannblendnir (lágir í úthverfu) af því að þeir hitta sjaldan annað fólk; taugaveiklaðir (lágir í jafnaðargeði) því þeir fara enn varlegar en þörf er á; íhaldssamir (lágir í víðsýni) því þeir vilja sjaldan prófa nýja hluti og umgangast framandi fólk; og svo þeir sem eru bæði samviskusamir og samvinnuþýðir, því þeir hlýða óbrigðult fyrirmælum um handþvott, ferðalög og hvaðeina annað sem sóttvarnayfirvöld mæla fyrir um.

Ef COVID-19 veiran er ekki komin nú þegar til landsins þá er það líklega bara tímaspursmál hvenær hún greinist eða kemur. Eftir því sem meiri tími líður, þeim mun líklegra er að vísindafólk og læknar nái að finna leiðir til þess að fyrirbyggja og lækna veikindin sem veiran veldur. Vonandi blessast það sem best. En fram að því er vitaskuld best að fylgja þeim fyrirmælum sem gefin eru út; þvo hendur, vera heima ef maður er veikur og hósta frekar inn í olnbogann en í lúkurnar, og það ætti meira að segja ósamvinnuþýðasta fólk að láta sig hafa.