Í bernsku minni – en ég ólst upp á heimili stjórn­mála­manns – hringdi stundum maður, sem mér skildist síðar að hafi verið vist­maður á Kleppi. Hann var snar­orður, líkt og hann væri tíma­bundinn, og gekk hreint til verks í erindi sínu. Ég, ör­verpið, svaraði oft. Ég myndaði því smám saman við þennan mann nokkuð eftir­minni­leg, en á­kaf­lega fag­leg – ef svo má að orði komast – tengsl. Jafnan bað maðurinn um að fá að tala við föður minn. Þegar í ljós kom að faðir minn var ekki heima, bað maðurinn undan­tekningar­laust um að ég kæmi til hans mjög á­ríðandi skila­boðum, sem mættu alls ekki klikka. Þau voru þessi:

„Nennirðu að biðja pabba þinn um að leggja tvær milljónir inn á reikninginn minn núna á eftir.“

„Já, ég skal gera það,“ svaraði ég sam­visku­sam­lega.

„Takk fyrir það, bless,“ sagði hann þá um­svifa­laust og skellti á í snatri, líkt og hann væri á hlaupum, sveittur á efri vör að bjarga ótal málum.

Þessi sím­töl voru ó­teljandi á vissu ára­bili, og nánast alltaf eins. Síðar átti eftir að sitja í mér þetta fum­leysi sem ein­kenndi manninn, þessi hrein­skiptni og þessi af­dráttar­lausa vissa hans um að svona virkaði ver­öldin. Ef mann vantaði pening þá bara hringdi maður í ráð­herra og bæði um pening. Málið dautt. Og þetta voru alltaf, ein­hverra hluta vegna, tvær milljónir. Ekki ein. Ekki þrjár.

Hlægi­legt auð­vitað. Ég átti oft eftir að segja af þessum sam­tölum skemmti­sögur í þröngum hópi. Eins og maður geti bara hringt í ráð­herra og beðið um pening?! Hvílík fjar­stæða!

Fólk hló. Ég hló.

Svo kom auð­vitað smám saman í ljós að grínið var allt á minn kostnað. Ég var ekki að fatta. Maðurinn var aug­ljós­lega með allt á hreinu. Hér var mikill snillingur á ferð. Lista­maður, vil ég meina. Sam­fé­lags­rýnir í hæsta gæða­flokki.

Nú hefur mér nefni­lega lærst á miðjum aldri að svona virkar auð­vitað ver­öldin víst og um það berast í fréttum ó­teljandi vitnis­burðir á ári hverju. Að vissum skil­yrðum upp­fylltum – sé maður með réttar stjórn­mála­skoðanir, rétta tengsla­netið og rétta starfs­heitið eins og til dæmis „fag­fjár­festir“ (sem enginn veit hvað merkir) – er hægt að gera eins og vist­maðurinn á Kleppi, með einum eða öðrum hætti, og hafa bara sam­band við réttan ráð­herra og fá góðan pening.

Ef ríkið, eða þjóðin, á auð­lindir hefur til dæmis ís­lenska leiðin verið sú að sumir fái leyfi – fyrir slikk – til þess að nýta þær auð­lindir, hafa þær að fé­þúfu og hagnast dug­lega.

Þetta hefur gagnast vel sem skil­virk að­ferð til að af­henda sumum peninga. Margar aðrar leiðir eru líka til, mis­lúmskar.

Hægt er að vera verk­taki eða ein­hvers konar fag­aðili og fara langt fram yfir kostnaðar­á­ætlanir í ríkis­fram­kvæmdum og rukka sam­kvæmt því.

Hægt er að fá að skrifa skýrslu um eitt­hvað, sem þegar er búið að skrifa skýrslu um.

Hægt er að vera lög­fræðingur og fá gott gigg við að rukka skuldir.

Hægt er að vera einn af fjöl­mörgum ráð­gjöfum við sölu á ríkis­eignum eins og banka – sem síðar á eftir að mis­heppnast al­gjör­lega, en hverjum er ekki sama – og rukka feitt.

Og svo er líka hægt að vera hinum megin við borðið – ef ekki báðum megin — og vera kaupandi að ríkis­eignum eins og banka og fá af þeim veru­legan af­slátt, sem er auð­vitað frá­bær leið til þess að af­henda peninga, því fólk er svo lengi að sjá hvað gerðist í raun. Hvað er rétt verð? Hvað er af­sláttur? Hvað er upp, hvað er niður? Hver ert þú? Hvað er banki? Hvað er ríki?

Svona mál má þæfa enda­laust og fara svo hlæjandi í þann sama banka. Snilldin er slík að meira að segja vel vinstri­grænir þaul­reyndir rétt­lætis­riddarar sósíal­ista­hug­sjónarinnar horfa á svona gjörninga beint fyrir framan nefið á sér – taka jafn­vel þátt í þeim – og fatta ekki baun hvað er að frétta.

Margir héldu að ef Sjálf­stæðis­flokkurinn væri til ein­hvers gagns, þá væri það helst það að hann vissi hvernig markaðir virka. Honum væri til dæmis treystandi til að selja hluta­bréf. En þetta er mikill mis­skilningur. Flokkurinn kann lista­vel að gefa hluta­bréf, en alls ekki selja þau. Hann hefur ekki hug­mynd um hvernig á að selja þau.

Ég held að margir séu ein­mitt núna svona í að­draganda jólanna til í þó ekki væri nema bara núll komma eitt prósent, oggu­poggu hlut, af þessum um það bil tveimur milljörðum sem ríkis­stjórnin gaf út­völdum – Banana­lýð­veldinu ehf. og fleirum – með sölunni á Ís­lands­banka.

Ég sé fátt því til fyrir­stöðu að sem flestir hringi í ráð­herra, eða sendi honum skila­boð, og biðji hann um að leggja tvær milljónir inn á reikninginn.

Núna á eftir, takk. Bless.