Þetta eru líklega furðulegustu páskar sem við höfum farið í gegnum lengi sem þjóð. Allir eiga að vera heima og passa sig, sem eðlilegt er. Samkomubann hefur áhrif á fjölskyldulíf flestra um þessar mundir og við finnum til mikillar löngunar í okkar fyrri hætti. Nú gildir að vera staðföst og halda áfram að fylgja þeim leiðbeiningum sem settar eru fram til hins ýtrasta. Við skulum og munum komast í gegnum þetta saman.

Iðulega er þetta tími afslöppunar, ferðalaga og útivistar auk þess að éta á sig gat af súkkulaðieggjum og lambakjöti. Hvíld og endurnæring eftir oftar en ekki harðan vetur og álag á þá sem eru í vinnu og námi. Svo í framhaldi af páskum kemur lokaspretturinn í skólunum fram að útskrift og sumri. Við þekkjum öll þetta tímabil, nema hvað núna er það mun lengra, skólinn og vinnan í fjartengingu sem og einnig ættingjarnir sjálfir undanfarið. Þetta er allt svolítið skrítið og það svífur yfir vötnum annar andi en venjulega. Við höfum breytt hegðun okkar og samskiptum stórkostlega á undanförnum vikum, sumpart af hinu góða og mátti jafnvel hafa gerst fyrr. Í öllu falli hafa flestir séð meira af sinni nánustu fjölskyldu en venjulega. Það eru þó enn margir í þeirri stöðu að vera sveltir af slíku, bæði til að verja þá sjálfa og einnig vegna þessa breytta hegðunarmynsturs sem við höfum tekið upp á síðastliðnum vikum.

Einmannaleiki er talsvert mikið í umræðunni og verri andleg líðan, augljóslega er mikil tenging þarna á milli og liggur fyrir að við munum þurfa að vinda ofan af slíku í kerfinu um nokkurt skeið til viðbótar þegar storminum slotar. Margvísleg úrræði hafa verið til og eru þau einna helst í tengslum við fjarfundarfyrirkomulag, að hitta vini og ættingja í gegnum síma eða snjalltæki er mjög góð skammtímalausn. Að endingu þurfum og viljum við meiri nánd og að geta tekið utan um okkar.

Það verður sjaldan ofsagt að það að ganga hægt um gleðinnar dyr eru góð ráð og eiga sömuleiðis við núna, fara sér í engu óðslega. Halda rútínu og áfengisneyslu í lágmarki, auka hreyfingu á móti eins og frekast er kostur. Auðvitað munum við sukka sem þessi helgi er beintengd við hvað varðar sætindi og mat líkt og jólin en það er líka hið besta mál, eitthvað verðum við jú að leyfa okkur. Það er verulega heilsusamlegt fyrir hugann að lesa góða bók og njóta ferðalags hugans í stað þess að láta mata sig eingöngu af sjónvarpsefni. Það að virkja heilann er mjög mikilvægt og koma þar til þættir fyrir utan það að lesa líkt og að pússla, ýmis konar handverk, prjóna, mála eða hvaðeina sem ýtir undir sköpun. Góð blanda af þessum þáttum mun skila okkur útúr páskunum jákvæðari og hressari en ella.

Það er hægt að muna eftir þessum páskum sem þeim þar sem við vorum innilokuð og gátum ekki hist né ferðast líkt og við hefðum kosið eða notið þeirrar útiveru sem er alla jafna tengd við þetta frí líkt og skíðaiðkun í brekkum landsins, við komust ekki í sundið né ræktina og þannig má áfram telja. En við ætlum ekki að gera það, við ætlum að sjá þessa páska og muna eftir þeim þar sem þjóðin stóð saman sem einn maður, fylgdi leiðbeiningum til að draga úr hættu á veikindum og komst í gegnum eitt erfitt tímabil með glans. Horfði inn á við, ræktaði sig og sína, tjúnaði sig niður og slakaði aðeins á. Þessi ofvirka þjóð hefur líklega bara gott af því. Njótum páskanna og gleymum því ekki að páskaheilsan er ekki bara okkar eigin heldur allra hinna sem við erum að passa uppá síðastliðnar vikur