Árið er 1991. 29. apríl. Bresk þjóð kemur sér fyrir í sófum sínum fyrir framan sjón­varpið af skömmustu­legri eftir­væntingu. Spjall­þáttur Terry Wogan er að fara að byrja. Gestur þáttarins er David Icke, vel liðinn sjón­varps­þátta­stjórnandi hjá BBC og fyrr­verandi at­vinnu­maður í fót­bolta. En eitt­hvað skrítið er um að vera. Slúður­blöðin segja að Icke sé að­eins farinn að klæðast fjólu­bláum fötum; að upp úr honum velli dóms­dags­spár um stór­flóð og jarð­skjálfta; að hann sé farinn að vísa í sjálfan sig sem son Guðs. 

Icke gengur í salinn klæddur fjólu­bláum í­þrótta­galla. 

„Hvers vegna þú,“ spyr Wogan í kurteis­legum á­rásar­ham. „Hvers vegna ert þú sá út­valdi?“ 

Á­horf­endurnir í salnum hlæja. 

Augna­ráð Icke flöktir. Eins og af­króað dýr bítur Icke frá sér. „Fólk hefði sagt það sama um Jesú. Hver í fjandanum þykist þú vera? Þú ert bara sonur smiðs.“ 

Eðlur í manns­líki 

Ég var í ís­lensku jóla­partíi hér í London um síðustu helgi þar sem um fátt annað var rætt en hinar svo kölluðu Klausturs­upp­tökur. Ein spurning brann á allra vörum. Nú hefur Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, kennt svo gott sem öllum öðrum um málið en sjálfum sér – dular­fullum hlerunar­búnaði, öllum hinum sem hafa sagt „enn­þá ljótari hluti“ en hann, huldu­mönnum sem Bára Hall­dórs­dóttir kann að hafa „tekið á sig sök“ fyrir. Hve­nær verður Sig­mundur Davíð uppi­skroppa með söku­dólga? 

Súrrealískt við­tal Terry Wogan við David Icke er frægt í Bret­landi. Við­talið markaði enda­lok ferils Icke sem þátta­stjórnandi. Það markaði hins vegar upp­haf ferils hans sem einn fremsti sam­særis­kenninga­smiður heims. David Icke heldur því fram að ver­öldin sé full af eðlum í manns­líki með ill á­form. Barack Obama er eðla. Mick Jag­ger er aug­ljós­lega eðla. Elísa­bet Eng­lands­drottning er eðla. 

Þeir hálf­nafnar Davíð Icke og Sig­mundur Davíð eiga fleira sam­eigin­legt en að vera kenndir við konung sem stútaði Golíat, risanum ó­gur­lega. Regla sem gjarnan er notuð í vísindum og gengur undir heitinu rak­hnífur Ock­ham kveður á um að ein­faldasta skýringin sé oftast sú rétta. Icke og Gunn­laugs­son eiga það sam­eigin­legt að vera þeirrar skoðunar að aug­ljósasta skýringin er sjaldnast sú rétta. 

Á jóla­sam­komunni hér í London varð til leikur sem hlaut heitið „partí­leikur Sig­mundar Davíðs“. Leik­reglur voru eftir­farandi: Þátt­tak­endur þurftu að láta sér detta í hug söku­dólg handa Sig­mundi ellegar taka brenni­víns­skot. For­manni Mið­flokksins er hér með gefið góð­fús­legt leyfi til að nýta af­raksturinn: 

1) Vertinn á Klaustri Bar: Víða er það sak­næmt að selja fólki sem þegar er mjög drukkið meira á­fengi. Orð­færi þing­mannanna sex sem sátu saman að sumbli er klár­lega á á­byrgð vertsins á Klaustri. 

2) Brölt apanna: Fyrir nokkrum milljónum ára stakk for­faðir mannanna hina apana af og klöngraðist niður úr trénu sínu. Heilar stækkuðu, það réttist úr bökum, verk­færi litu dagsins ljós og eldar voru tendraðir. Bóndinn leysti veiði­manninn af hólmi. Newton fékk þyngdar­aflið í höfuðið en maðurinn hóf sig engu að síður á loft á þöndum stál­vængjum. Henry Edward Roberts bjó til borð­tölvuna, Tim Berners-Lee fann upp veraldar­vefinn, Ste­ve Jobs fékk mikil­mennsku­brjál­æði og bamm: Allt í einu voru allir komnir með hlerunar­búnað í vasann. Ef aparnir hefðu að­eins haldið sig í trjánum … 

3) Allt í plati: Upp­takan var sýnis­horn úr Ára­móta­s­kaupinu. 

4) Stalín, Pol Pot, Hitler og Neró: Sig­mundur kann „fjöl­margar sögur“ af fólki sem hefur sagt og gert svo „miklu ljótari hluti“. 

5) Fram­leið­endur gulra vesta: Bára Hall­dórs­dóttir hefur verið boðuð til yfir­heyrslu í Héraðs­dómi Reykja­víkur á mánu­daginn. Stuðnings­menn hennar hyggjast fjöl­menna á svæðið í gulum vestum að hætti franskra mót­mælenda. Grunur hlýtur að falla á fram­leið­endur gulra vesta um að vera á bak við Klausturs­skandalinn sem stór­græða á upp­á­tækinu. 

6) Eðlur: Ef allt annað bregst má alltaf klína þessu á eðlurnar.