Evrópusambandið er ekki skilgreint sem varnarbandalag. Engu að síður er í Lissabon-sáttmálanum, grundvallarsáttmála samstarfs ESB-ríkja, klausa sem kveður á um að öllum ríkjum ESB beri skylda til að koma til aðstoðar verði eitt þeirra fyrir vopnaðri árás.

Eftir hryðjuverkaárásirnar í París haustið 2015 var þessi klausa, 42. grein Lissabon-sáttmálans, virkjuð.

42. greinin er sambærileg við 5. grein NATO-sáttmálans, sem kveður á um að árás á eitt NATO-ríki sé árás á þau öll.

Andstæðingar ESB-aðildar Íslands hafa reynt að eyða þeirri umræðu að hyggilegt sé fyrir Ísland að ganga í ESB vegna varnarhagsmuna. Rök þeirra eru að með aðild að NATO séu varnarhagsmunir Íslands tryggðir – aðild að ESB bæti þar engu við.

Þessi rök andstæðinga ESB-aðildar Íslands halda ekki vatni.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var hársbreidd frá því að draga Bandaríkin út úr NATO. Ólíklegt er að Trump verði aftur forseti, þó að það gæti gerst. Hins vegar er mjög líklegt að einhver skoðanabróðir hans verði kjörinn í Hvíta húsið á næstu árum.

Einangrunarhyggja og fráhvarf frá viðurkenndum gildum frjálsræðis og mannréttinda sem eru hornsteinn lýðræðis eiga mjög upp á pallborðið í Bandaríkjunum og virðast frekar færast í aukana en hitt.

Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að tryggja varnir landsins í bráð og lengd. Reynsla nýliðinna ára sýnir, svo ekki verður um villst, að á sama tíma og hættan á alvarlegum ófriði í okkar heimsálfu hefur margfaldast er raunveruleg hætta á að Bandaríkin dragi sig út úr því vestræna varnarsamstarfi sem staðið hefur frá 1949.

Hver er þá staða Íslands?

Aðildarríki ESB skynja þessa hættu. Óvarlegt er að reiða sig á hernaðarmátt Bandaríkjanna gegn ógn úr austri. Öll ríki sambandsins hafa ákveðið að stórauka útgjöld til varnarmála.

Íslenskum stjórnvöldum ber að byggja stefnu landsins í varnarmálum á raunverulegum aðstæðum í heiminum en ekki fortíðarþrá og gamalli heimsmynd.