Nú líður mér dálítið eins og þeirri miðaldra konu sem ég svo sem er.

Það er búið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna Log4j. Hin stafræna tilvera okkar er í verulegri hættu.

Í kringum mig kinka allir áhyggjufullir kolli. Ég horfði á Einar Þorsteinsson í Kastljósinu, jafn ábúðarfullan og venjulega, ræða málin við mikla kunnáttumenn. Ég áttaði mig eiginlega ekki á hvað menn voru að segja en kunni að meta yfirvegunina og augljósa þekkinguna. Hér er mikil óvissa á ferð og fyrir mér ekki bara óvissa heldur algerlega óþekkt óvissa. Það getur sum sé allt farið fjandans til í okkar stafræna lífi og það er eiginlega frekar líklegt.

Mögulega kemur hér vel á vondan, því það er ekki langt síðan mjög margir vissu ekki hvað COVID-19 (SARS-CoV2), raðgreiningar, hjarðónæmi, sóttkví og hópsýking var. Ég hafði ákveðið forskot í þeirri umræðu vegna menntunar minnar og starfa, en nú er því ekki að heilsa. Ég þarf að læra hvað Log4j (CVE-2021-4428), spillikóðar, kóðaklasi, kóðabútur og kóðasöfn eru. Vegna þess að þetta getur valdið leka mikilvægra gagna og jafnvel gíslatökum, hvorki meira en minna.

Kannski verð ég svona Logisti, eins og Kóviti (sá sem telur sig allt vita um Covid, en hefur í raun engar forsendur til þess). Ég gæti birt „lærða“ statusa á fb og Twitter með heimatilbúnum gröfum og tilgangslausri tölfræði. Ég hugsa samt að ég láti það vera, mér sýndist við þegar komin með þetta ágæta þríeyki í Kastljósinu.

Næsti pistill verður ef til vill handskrifaður og færður á síður Fréttablaðsins með kalkipappír.