Mörg hundruð manns sem flugu frá Bandaríkjunum til Íslands aðfaranótt sunnudagsins síðastliðins hljóta að hugsa sig um tvisvar áður en þau treysta flugfélaginu sem ferjaði þau yfir hafið aftur fyrir tíma sínum.

Þoturnar sem streymdu yfir hafið þessa nótt stefndu beint með farm sinn í herkví hálku og vindhviða við komuna til Íslands. Vegna aðstæðna var ekki hægt að hleypa farþegunum frá borði og máttu þeir dúsa í vindbörðum flugvélunum sem jafnvel snerust eins og skoppara­kringlur á ísilögðum flugbrautum og flughlöðum.

Allt virðist þetta hafa verið fyrirsjáanlegt áður en þoturnar hófu sig til lofts vestanhafs, að minnsta kosti ef marka má útlitið samkvæmt spá Veðurstofu Íslands fyrir Keflavíkurflugvöll sem gefin var út á ellefta tímanum á laugardagskvöld – fyrir brottför frá Bandaríkjunum. Nefna má að vegfarendur á Reykjanesi urðu varir við fljúgandi hálku sem þegar um kvöldið hafði lagst þar yfir vegi – og eflaust flugbrautir líka.

Vel má vera að flugrekendur telji sig í fullum rétti til að standa í veðmálum við veðurguðina og umboðsmenn þeirra hér á jörðu niðri – og síðan teygja þægindaramma viðskiptavina sinna út fyrir öll mörk ef þeir verða undir í þeim slag. Kannski er þeim vorkunn að vilja að allt gangi snurðulaust fyrir sig og samkvæmt áætlun.

Frá sjónarhóli flugfarþega virðist vandinn vera skipulag og umgjörð millilandaflugs. Isavia, sem rekur Keflavíkurflugvöll, hefur gefið út að slíkur alþjóðaflugvöllur sé ávallt opinn á meðan hægt sé að lenda. Það sé flugfélögunum í sjálfsvald sett hvort þau lendi þegar völlurinn er opinn – líka þótt ekki sé mögulegt að koma farþegum og áhöfn frá borði heldur þurfi að láta hópinn hírast í vélunum þar til slæmar veðurspár hafa ræst að fullu.

Hugsanlega þurfa yfirvöld að grípa hér í taumana með hagsmuni almennings í huga í staðinn fyrir sjónarmið flugrekenda sem vilja halda sínum plönum – sem eins og alkunna er þola ekki mikið rask án þess að fara út um þúfur með tilheyrandi kostnaði og vandamálahölum.

Vera má að setja þurfi flugfélögunum stólinn fyrir dyrnar í þessum efnum eða kannski þarf eigandi flugvallarins einfaldlega að útbúa aðstæður sem tryggja eins og framast er unnt að koma megi fólki út úr vélunum og í mannsæmandi skjól inn í hús ef á annað borð er hægt að lenda. Með milljarðatugina sem farið hafa í Keflavíkurflugvöll og umgjörð hans í huga hlýtur einfaldlega að vera hægt að búa þannig um hnútana. Nema náttúrlega að viljinn standi til þess að halda áfram að bjóða upp á óvissuferðir.