Ég gat ekki staðist freistinguna upp úr fimm á þriðjudaginn. Það var byrjað að hvessa dálítið í Vesturbæ Reykjavíkur en þetta virtist ekki ætla að verða „neitt neitt“ og mér var allnokkuð í mun að sýna heimilisfólkinu fram á að það „yrði ekkert úr þessu veðri í Reykjavík“. Þannig að ég óhlýðnaðist tilmælum, dúðaði mig upp og labbaði af stað út að Ánanaustum. Þegar ég skoðaði spána á norsku veðurstofunni, sem allir eru alltaf að segja að sé svo góð, þá var gert ráð fyrir að í Reykjavík yrði „gentle breeze“ seinnipartinn á þriðjudaginn.

Það reyndust ekki gagnlegar upplýsingar og ég var ekki lengi utandyra. Eftir að hafa gengið um það bil 200 metra í átt að sjónum fór ég að skilja betur hvað veðurfræðingarnir höfðu verið að segja. Þegar komið var út í Ánanaust var eins og stigið væri inn í allt annan heim. Viðráðanlegt hvassviðri hafði breyst í stjórnlausan ofsa þar sem strengurinn lá að norðan, líklega fram hjá Esjuskjólinu. Ég hef ekki hugmynd um hvað metrarnir voru margir á sekúndu en það mátti ekki mikið út af bregða til þess að ég kæmi sjálfum mér í hættu, og þar með öllum þeim sem gert hefðu tilraunir til þess að koma mér til aðstoðar. Mér tókst að koma mér heim án þess að valda tjóni, en þessi stutti göngutúr dugði til að minna mig á annars vegar hversu varnarlaus við erum gagnvart slíkum veðurofsa en líka kraftaverkið sem er skjólið og hlýjan sem flest okkar geta treyst á þegar svona gjörningaveður ganga yfir.

Kósíkvöld eða neyðarástand

Á höfuðborgarsvæðinu gat fólk sett inn myndir á samfélagsmiðlum um „kósíkvöld“ og þar var kveikt á kertaljósum til skrauts. Kakó var hitað í pottum á rafdrifnum hellum og internetið hélt áfram að streyma í háskerpu ýmiss konar afþreyingarefni til þess að stytta stundirnar á meðan veðrið geisaði.

En þessum þægindum var svo sannarlega ekki jafnt dreift, og þau eru heldur sjálfgefin. Þau eru ekki breið skilin sem liggja milli þess að sitja inni í hlýju húsi með blússandi nettengingu eða að þurfa að eiga í höggi við stjórnlausan veðurofsa og kulda í rafmagns- og samskiptaleysi, eins og var raunin fyrir þúsundir Íslendinga á þeim svæðum þar sem veðrið var skæðast. Og fjölmargir lögðu sig í bráða hættu til þess að tryggja öðrum meira öryggi.

Veðrið er ekkert grín

Margir Íslendingar, einkum í sjávarplássum, hafa alist upp við að ekki megi grínast með veðrið. Þegar ein sjónvarpsstöðin ákvað fyrir mörgum árum að „hressa upp á“ veðurfréttatímana að amerískum sið fór það verulega fyrir brjóstið á mörgum sem fannst að þar væri verið að rugla saman lífsnauðsynlegri upplýsingagjöf og skemmtiatriðum.

Það er nefnilega ótrúlegt til þess að hugsa hversu stutt er síðan heilu bæjarfélögin á Íslandi biðu milli vonar og ótta þegar aftakaveður gengu yfir landið og miðin. Fyrir einungis örfáum áratugum skullu slík veður á með litlum fyrirvara þannig að skip og bátar sem voru langt frá landi höfðu takmarkað svigrúm til þess að komast í höfn eða var. Og í sjávarplássum liðu varla heilar vertíðir án þess að einhver mannskæð áföll yrðu vegna veðurs.

Ótrúlegar framfarir hafa orðið hvað þetta varðar. Veðurfræðingarnir íslensku gátu nánast spáð um veðrið í Reykjavík eftir götuheitum. Og alls staðar annars staðar um landið höfðu viðvaranir reynst vera fyllilega á rökum reistar. Veðrið sem gekk yfir landið var ekki bara vont heldur stórhættulegt og öll þjóðin óttast um afdrif ungs manns og biður fyrir honum og fjölskyldu hans.

Innan þægindarammans

Flesta daga þurfum við lítið að hugsa um þá staðreynd að Ísland er harðbýlt land. En veðrið í vikunni minnir á hversu lítið getur stundum vantað upp á til þess að mikilvægustu innviðir gefi eftir. Og eftir því sem samfélagið verður tæknivæddara og flóknara, þeim mun viðkvæmara getur það orðið fyrir hvers konar raski á hefðbundnum lífsgæðum. Það er þess vegna ágætt að hafa í huga aðgreininguna sem Trausti Jónsson veðurfræðingur fjallar um á heimasíðu sinni varðandi hvernig meta skuli áhrif illviðris. Skaðsemi veðurs er annars vegar háð tjónmætti veðursins sjálfs en hins vegar tjónnæmi þess sem fyrir því verður.

Áður fyrr var fólk alvant því að komast af án þess að komast í verslanir daglega og gagnkvæm fjarskipti léku nánast ekkert hlutverk í daglegu lífi. Gamla símakerfið var nánast algjörlega veðurhelt og upplýsingagjöf í neyð átti sér stað í gegnum útvarpsbylgjur sem hægt var að senda út og taka við hvernig svo sem ástand var á öðrum innviðum. Bæði kerfin voru að mestu leyti óháð öðrum kerfum. Nú er hins vegar flest háð netkerfum og þar með rafmagni í húsum, gsm-sendum og gagnaverum. Þetta er mjög umhugsunarvert, ekki síst í ljósi þeirra frétta að tetra-samskiptakerfið, sem almannavarnakerfið treystir á, hafi ekki reynst algjörlega áreiðanlegt í veðrinu.

Undirbúningur

Aflið í veðrinu á Íslandi getur verið algjörlega óviðráðanlegt á meðan á því stendur og það er smekklaust að benda fingrum í hinar og þessar áttirnar yfir þeim truflunum sem urðu vegna veðursins. Kraftaverkið er einmitt hversu litlar truflanirnar eru þegar veður er svona vont í flóknum og brothættum nútímanum. Að sjálfsögðu stendur metnaður allra til þess að draga enn frekar úr truflunum sem orðið geta af völdum svona óveðra. Það verður hins vegar aldrei hægt að gera Ísland algjörlega veðurhelt, og enn þá síður er hægt að tryggja almenning algjörlega gagnvart fjölmargri annarri náttúruvá; svo sem eins og jarðhræringum, eldgosum og flóðum.

Besta vörnin felst líklega í því að fólk viti almennt hvað skuli til bragðs taka við slíkar aðstæður og sé eins vel undirbúið og hægt er. Víða um heim er íbúum á hættulegum svæðum uppálagt að eiga viðleguútbúnað sem dugir þeim í nokkra daga ef innviðirnir lamast. Í gamla daga voru ágætar upplýsingar í símaskránni um hvernig bregðast ætti við í ýmsum neyðartilvikum en líklega er ekki hægt að ganga út frá því lengur að slíkar upplýsingar séu til staðar inni á öllum heimilum, hvað þá allur sá búnaður sem þyrfti til að halda út í nokkra daga ef veður eða náttúruhamfarir setja samfélagið úr skorðum. Þegar metin eru viðbrögð við veðurhamförum sem þessum er mikilvægt að falla ekki í þá gryfju að halda að það sé á færi stjórnvalda eða almannavarna að forða fólki algjörlega undan afleiðingunum. Í samfélagi sem býr við mikla hættu á náttúruhamförum er það skylda okkar allra að undirbúa okkur eins og við getum og vera að sjálfsögðu ekki að þvælast út úr húsi að óþörfu eins og ég gerðist sjálfur sekur um á þriðjudaginn.