Förum aðeins yfir þetta. Eina ferðina enn.

Hugverkageirann vantar níu þúsund manns. Ferðaþjónustan þarf átta þúsund manns. Okkur vantar pípara, múrara og rafvirkja. Við þurfum fólk sem byggir hús, fólk sem veitir þjónustu og fólk sem veitir aðhlynningu. Fólk í þorp, fólk í sveitir og fólk sem fær hugmyndir.

Okkur vantar ekki bara fólk inn í kerfið. Okkur vantar líka fólk sem stendur undir kerfinu. Við þurfum fleiri hendur á dekk. Til að halda sjó.

Það er ekki bara nóg að skapa störf, það þarf líka að manna þau. Það er ekki nóg að auka þjónustu, það þarf líka að fjármagna hana. Það er ekki nóg að teikna hús, það þarf líka að byggja það.

Þetta er allt saman vandlega kortlagt og útlistað.

Hér kemur svo algjört lykilatriði. Þar sem náttúruleg fjölgun þjóðarinnar slefar varla upp í fimmtung þess sem við þurfum, þá þarf innspýtingin að koma að utan.

Við eigum sem sagt ekki nóg með okkur sjálf. Þótt einhverjir kunni að halda öðru fram.

Þess vegna er það svo undarlegt að við skulum ríghalda í allar þessar löngu úreltu gaddavírsgirðingar sem við höfum reist inn á íslenskan vinnumarkað. Sérstaklega ef fólk vogar sér að koma frá löndum utan Evrópu.

Það virðist engu skipta þótt forsprakkar atvinnulífsins kvarti undan þessu. Aftur og aftur. Þótt allir sjái tvískinnunginn. Ekkert breytist.

En tvískinnungurinn á sér annað andlit. Sem blasir við fólki sem fær aldrei að koma lengra en inn í anddyrið.

Í gær sögðu tvær konur frá Venesúela sögu sína. Þær, líkt og hundruð annarra í sömu sporum, komu hingað til lands í leit að festu og öryggi.

Þær þrá ekkert heitar en að leggjast á árarnar. Manna störf og auðga samfélagið. Sem er einmitt það sem við þurfum.

En við mætum þeim auðvitað með brottvísun. Vegna þess að reglur, sem eru mannanna verk, segja nei.

Skítt með atvinnuleyfið ykkar. Skítt með óöryggið og ofsóknirnar sem bíða ykkar. Skítt með mannekluna. Kerfið segir nei.

Í alvörunni talað, þetta þarf ekki að vera svona. Allt snýst þetta á endanum um að bæta hag sem flestra. Skynsemi í bland við smá snefil af mennsku. Breytum þessu.