Ég kom heim til mín núna á sunnudag, eftir að hafa varla sést þar í mánuð. Henti góðum stafla af dagblöðum, meira að segja þeim sem innihéldu óleystar krossgátur og hellti upp á kaffi. Það er fyrst með kaffi í hönd sem hægt er að anda djúpt, horfa í kringum sig og athuga hvort ekki sé allt í góðu.Það skal viðurkennt að ýmislegt kom mér á óvart. Mest var það að öll sumarblómin mín, sem ég sáði af natni í febrúar og mars, priklaði og spjallaði við alveg fram í apríl, voru enn á lífi. Og gott betur. Sum þeirra eru jafnvel farin að blómstra.

Ekki hófst samt uppeldið vel. Í staðinn fyrir að herða plönturnar og venja við íslenskt veðurfar fengu þær bara að njóta sín í stofuglugganum í frekar stöðugu loftslagi. Sem sagt algert dekur. Það er að segja ef ég væri að rækta kaktusa, þar sem ég minnist þess ekki að hafa vökvað þennan síðasta mánuð. En flauelsblóm, dvergdalíur og skjaldfléttur eru greinilega harðgerar plöntur.Það er möguleiki á að einhver hafi brotist inn til mín, með það verkefni eitt fyrir höndum að sinna sumarblómunum.

En líklegast finnst mér að kettirnir hafi sinnt þessu hlutverki. Sérstaklega í ljósi þess að í fjarveru minni virðist kattafjöldinn hafa tvöfaldast. Og í dag eru það nokkrir ringlaðir kettir sem skilja ekkert í því hvað ég er að þvælast fyrir þeim alla daga á stað sem var svo notalegur fyrir bara örstuttu síðan.Lærdómurinn af þessu er að þegar álagið er mikið og brjálað er að gera, þá kemur hjálpin stundum úr óvæntri átt og eftir standa blómstrandi sumarblóm. n