Ekki er margt líkt með stjórnarfari Íslendinga og Pólverja, nema ef vera skyldi undirliggjandi íhaldssemi sem á stundum brýst út með afturhaldssamri ofsahræðslu við frelsið.

Og það eiga þessi lönd nú sameiginlegt að forsetar þeirra hafa báðir synjað umdeildum fjölmiðlalögum staðfestingar, Ólafur Ragnar Grímsson í upphafi þessarar aldar og Andrzej Duda undir lok þessa árs sem senn kveður.

Í báðum tilvikum voru komnir til sögunnar öflugir og einkareknir fjölmiðlar sem voru ekki að skapi ríkjandi stjórnvalda, raunar í fullkominni óþökk þeirra, svo brá fyrir ógeði, en frelsi þeirra þyrfti að takmarka með svo strangri lagasetningu að starfsemi þeirra í óbreyttri mynd yrði ómöguleg.

Þöggunina átti að færa í lög. Á Íslandi og í Póllandi.

Ástæðuna má auðvitað rekja til valdspillingar í þágu innmúraðra afla í samfélaginu sem óttast að breytingar og nýjungar taki spón úr aski þeirra. Og þessarar hræðslu við stöðumissi á markaði hefur svo margsinnis orðið vart á síðustu áratugum umbreytinga að almenningur ætti að vera orðinn vanur henni, en þar er kominn skelfingarkvíðinn yfir því að utanaðkomandi athafnamenn ætli sér upp á pall og heimti þaðan skerf af löngu úthlutaðri kökunni.

Í þessu efni er ójöfn viðureign Pálma Jónssonar í Hagkaupum við íslenska stórkaupmannaveldið á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar ógleymanlegur vitnisburður um andstöðu aðalsins við frjálsa verslun. Og sá drottnunargjarni yfirgangur var auðvitað endurtekinn þegar Jóhannes Jónsson í Bónus riðlaði kerfinu enn frekar á níunda áratug sömu aldar og festi í sessi lágvöruverðsverslun á Íslandi, almenningi til ómældrar kjarabótar.

Á sama hátt átti að þagga niður í nýju íslensku fjölmiðlaveldi í aðdraganda alþingiskosninganna 2003 – og það með endurteknum uppnefnum og hallmælum – af því eigendurnir voru ekki í klíkunni og farnir að valda rétta málsgagninu skaða. Og hér var ekki töluð nokkur tæpitunga úr stjórnarráði Íslands, í hópi eigenda Stöðvar 2 og Fréttablaðsins færu menn sem ætluðu sér ekki einasta að færa völdin til á fjölmiðlamarkaðnum, heldur og í íslenskum stjórnmálum með fulltingi fjölmiðla sinna. Sum sé, það sem eigið málgagn mátti, átti ekki að vera á færi annarra.

Ótti íhaldsins við uppstokkun valdsins reyndist sá sami í Póllandi og á Íslandi, hræðslan við frjálsa fjölmiðlun, kvíðinn gagnvart upplýstri blaðamennsku sem lýtur lögmálum fagsins en ekki keisarans í kufli sínum. n