„Kerfið“ getur verið undarlegt og torskilið fyrirbæri og oft og tíðum ekki fyrir venjulegt fólk að átta sig á því hvernig það virkar. Hvað þá ef viðkomandi er helsjúkur af lífsógnandi sjúkdómi.

Tökum raunhæft dæmi af ungri stúlku sem greindist með krabbamein í höfði árið 1999, aðeins 18 ára. Hún bjó við góða tannheilsu – enda hafði hún alla tíð hugsað vel um tennur sínar. Vegna krabbameinsins þurfti unga stúlkan að fara í heilauppskurð og í kjölfarið kröftuga lyfjameðgerð og geislameðferð frá höfði og niður eftir mænu. Krabbameinsmeðferðirnar leiddu til þess að tennur og tannbein skemmdust og því þurfti hún að undirgangast flóknar tannholsaðgerðir þar sem m.a. mannabein og kúbein voru grædd í munn hennar í stað tannbeinsins sem eyddist. Í kjölfarið þurfti að græða í hana svokallaða „implanta“. Allt þetta var afar kostnaðarsamt, reyndar svo mjög að það hleypur á endanum á tugum milljóna, þar sem enn eru óunnin verk að vinna í munni hennar sem rekja má til krabbameinsmeðferðarinnar.

Í sjúkratryggingum eru ákvæði sem kveða á um endurgreiðslu tannlæknakostnaðar ef ástæðuna fyrir tannlækningunum megi rekja til alvarlegra veikinda. Þær ástæður eru sannarlega til staðar hjá ungu konunni. Þegar hún fer að kanna málið, með þátttöku sjúkratrygginga í öllum þessum kostnaði, er henni tjáð að hún þurfi fyrst að sanna að tennur hennar hafi verið heilar og óskemmdar áður en hún greindist með krabbamein. Það getur hún ekki – enda hafði enginn fyrir því að benda henni á að fara til tannlæknis fyrir krabbameinsmeðferðina „svona til vonar og vara ef tennur og tannbein myndu eyðileggjast“. Henni er þó boðið uppá sömu niðurgreiðslu og öðrum öryrkjum, þ.e. 50% afslátt á viðgerðum en ekki krónuskiptingum eða implöntum né öðrum aðgerðum.

Unga konan missti einnig hárið varanlega vegna krabbameinsmeðferðarinnar. Hún verður því að notast við hárkollu og fær styrk uppá 77.000 krónur á ári til að kaupa hana. En þá bregður svo við að unga konan er með óvenju lítið höfuð og því eru þær hárkollur, sem falla innan styrksins, of stórar á hana, reyndar svo að þær minnstu ná niður fyrir eyru hennar. Konan er svo heppin að nokkrir hársekkir hennar virðast hafa sloppið og því hefur hún nokkrar hártjásur á höfðinu. Eftir mikla leit víða erlendis finnur hún hárkollugerð í Bretlandi sem sérhæfir sig í hárkollum fyrir fólk sem svipað er komið fyrir og henni. Hárkollan er framleidd úr ekta evrópsku hári og þarf að sérsauma hana í hvert skipti sem síðan er fest við það litla hár sem enn er eftir hjá konunni. Hver kolla endist ekki nema í tvö til fjögur ár. Í hvert sinn þarf unga konan að fara til Bretlands vegna undirbúnings og skoðunar og síðan þarf hún að fara aftur út og sækja hana nokkrum mánuðum síðar.

Hárkollurnar, ferðirnar og afleiddur kostnaður hleypur á milljónum, nú þegar, en ljóst er að unga konan þarf alla ævi að fara reglulega til Bretlands og endurnýja hárkolluna sína. Þar sem kostnaðurinn var að sliga konuna, ákvað hún eitt sinn að fá kolluna senda til Íslands og spara sér þannig ferðina út. Þegar kollan kom til landsins kom í ljós að hún þurfti að greiða kr. 120.000 í toll þar sem hárkollan hennar flokkaðist undir munaðarvöru! Varla þarf að taka fram að allan þennan kostnað þarf konan að bera sjálf utan þess sem hún fær um 77.000 þúsund krónur frá sjúkratryggingum í hvert sinn sem hún endurnýjar.


Hvað segja þessi tilfelli um „Kerfið“ sem á að þjóna öllum sínum þegnum jafnt? Svarið er einfalt: Ef þú passar ekki inn í rammann getur þú étið það sem úti frýs. Kerfið kann ekki að taka á tilfellum sem eru utan rammans. Ef svo væri, myndu Sjúkratryggingr líklega fara á hausinn – enda svo gífurlegur fjöldi krabbameinsveikra á Íslandi með alltof lítil höfuð og ónýt tannbein af völdum krabbameinsmeðferðar. Eða hvað? Einhver hlýtur ástæðan að vera að ekki er tekið tillit til þeirra sem passa ekki inn í rammann.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Krafti, stuðningsfélagi.