Það vilja fjór­tán manns verða nýr for­stjóri Land­spítala. Það er ó­skiljan­leg eftir­spurn. Starfið felur í sér að sigla hrip­leku skipi og út­gerðin virðist ekkert ætla að hjálpa svo nokkru nemi. Að stjórna þarna hlýtur fyrir venju­legan leik­mann eigin­lega að vera mar­tröð. Fréttir af neyðar­á­standi á bráða­mót­töku, frestun á lífs­nauð­syn­legum að­gerðum, gjör­gæsla sem læknir lýsir sem „allt­of litlum björgunar­báti“ og ör­magna starfs­fólk sem segist ekki geta sinnt starfi sínu al­menni­lega og óttast mis­tök á hverri vakt – þetta er hlað­borð for­stjórans dag­lega, hreint hlað­borð hel­vítis sem svignar af slori.

Hans æðsti yfir­maður, sem við getum vel sagt að sé fjár­veitinga­valdið – er sko ekkert að sýna þér skilning. Þú situr undir gagn­rýni á störf þín þegar þú vilt á­heyrn, á meðan allir dagar fara í að slökkva elda og halda í fólkið, halda geðinu í lagi hjá öllum. Svo starfs­fólkið fari ekki bara eitt­hvað annað eða stór­slys verði vegna undir­mönnunar. Frá­farandi for­stjóri þótti ekki fara nógu vel með peningana sagði fjár­veitinga­valdið, fram­leiðnin var bara ekki nógu mikil hjá spítalanum. Fer­lega lé­legur rekstur hjá fyrir­tækinu, eða víst … spítalanum. For­stjórinn á undan þér er svo mærður í há­stert, hann kann þetta sko. Kominn til út­landa að stýra stærsta skipinu þar og þú ert bara sá sem er að mis­takast. Nú er netið komið í skrúfuna hjá spítalanum og það sást lengi og langar leiðir að það var á leið þangað.

Sá sem vill taka verk­efnið að sér á að­dáun skilið. Hvatinn er kannski í hærri launa­tékka þótt það sé eigin­lega ó­lík­legasti hvatinn til slíkrar sjálfs­píningar sem þetta starf hlýtur að vera. Það er milljón dollara spurning í huga fyrr­nefnds ó­breytts leik­manns hvað það er eigin­lega sem heillar við djobbið.