Öll vopnin eru nú dregin fram hjá seðlabönkum heimsins til þess að sporna við efnahagsáhrifum kórónaveirufaraldursins. Sá íslenski er þar engin undantekning og nýtur þess að vera ekki með vextina við núllið, eins og mörg önnur ríki, og að vera rétt að byrja í beitingu óhefðbundinna stýritækja. Aðgerðir og framganga seðlabankastjóra gefa skýrt til kynna að sveigjanleiki verði hafður að leiðarljósi og bankinn muni vera óhræddur við að feta sig inn á áður ótroðnar slóðir. Ákvörðun um að hefja bein kaup á ríkisskuldabréfum fyrir allt að 150 milljarða, í því skyni að fjármagna mikinn hallarekstur ríkissjóðs, var nauðsynleg til að halda niðri skuldabréfavöxtum og tryggja lausafé í umferð svo vaxtalækkanir skili sér betur til fyrirtækja og heimila. Fyrirséð er að umfang kaupanna verður aukið og þá hlýtur að koma til greina að bankinn kaupi einnig fleiri skuldabréfaflokka.

Allt atvinnulífið glímir nú við lausafjárskort. Fyrirtæki geta ekki staðið við sínar skuldbindingar, meðal annars gagnvart bönkunum, og allir eru samtímis að reyna að komast yfir það reiðufé sem býðst við þessar aðstæður. Afleiðingin er sú að fjármagn verður dýrara fyrir þá sem það þurfa. Þrátt fyrir að búið sé að aflétta sveiflujöfnunaraukanum og lækka bindiskylduna, aðgerðir sem auka verulega svigrúm bankanna til útlána, þá er óvíst að hversu miklu marki það fjármagn sem losað er um mun miðlast áfram út í hagkerfið. Líklega er þörf á enn umfangsmeiri og markvissari ráðstöfunum, með ríkari aðkomu hins opinbera, til að vinna gegn þessari lausafjárþurrð og koma þannig í veg fyrir að fyrirtækin dragi saman seglin og segi upp fólki í stórum stíl á komandi vikum og mánuðum.

Sterk staða þjóðarbúsins, ásamt þeim kostum sem fylgja því að vera með okkar eigin mynt, mun hjálpa okkur að komast í gegnum þennan skafl skjótt og örugglega.

Samkvæmt dekkri sviðsmynd Seðlabankans má gera ráð fyrir fimm prósenta samdrætti í landsframleiðslu og um sjö prósenta atvinnuleysi á árinu. Sú sviðsmynd, sem er ekki spá en á að gefa hugmyndir um hve mikil efnahagsáhrif faraldursins geta orðið, er vafalítið of bjartsýn. Gangi hún eftir, en aðeins er gert ráð fyrir um fjögurra prósenta samdrætti í einkaneyslu, yrði það varnarsigur. Raunhæfara er að ætla að efnahagssamdrátturinn geti orðið um tíu prósent og atvinnuleysið sömuleiðis. Innlend neysla er að dragast stórkostlega saman og ferðaþjónustan, sem stendur undir nærri 40 prósentum af gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins, er að leggjast alfarið af um nokkurra mánaða skeið.

Forystuleysi ríkisstjórnarinnar hefur réttilega verið gagnrýnt. Núna hefur það breyst. Það hefur verið traustvekjandi að sjá forystumenn hennar, einkum fjármála- og efnahagsráðherra, stíga fram og tala með hreinskiptnum hætti um vandann og þá gríðarlegu óvissu sem er til staðar, en um leið undirstrika að þau muni gera það sem til þarf. Slík skilaboð skipta máli. Við skulum samt hafa það hugfast að allir aðgerðarpakkar stjórnvalda, sama hversu umfangsmiklir þeir eru, geta aðeins mildað höggið en ekki látið það hverfa. Við stöndum eftir sem áður frammi fyrir djúpri kreppu, en vonandi aðeins skammvinnri. Sterk staða þjóðarbúsins, ásamt þeim kostum sem fylgja því að vera með okkar eigin mynt, mun hjálpa okkur að komast í gegnum þennan skafl skjótt og örugglega.