Verðbólga herjar á landsmenn. Þeir sem vilja koma sparifé sínu í verðtryggt skjól fá skilaboð um að slíkt fé skuli læst inni í þrjú ár.

Þrjú ár er alllangur tími. Hverju sætir að ekki er unnt að fá verðtryggð kjör nema binda féð svo lengi?

Þessi regla er ekki náttúrulögmál.

Í lögum um vexti og verðtryggingu segir að Seðlabankinn geti að fenginni staðfestingu ráðherra ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna. Reglur bankans eru um þriggja ára binditíma. Hvers vegna?

Frá 1994 þurftu innstæður að vera bundnar í eitt ár til að njóta verðtryggingar. Í greinargerð með frumvarpi til vaxtalaga 1995 segir að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar komi fram að unnið verði að því að draga úr verðtryggingu í áföngum. Óski því viðskiptaráðherra þess að Seðlabankinn leggi fram tillögur um lengingu á lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána.

Þarna er rótin: Til að draga úr vægi verðtryggingar (óljóst markmið en er dulmál sem merkir staðfastan ásetning um að gera ekki neitt) fyrir tæpum þremur áratugum var binditími verðtryggðra innstæðna lengdur úr einu ári í þrjú ár.

Hefur þetta atriði leitt af sér minna vægi verðtryggingar? Telja má fullreynt eftir tæpa þrjá áratugi að svo er ekki.

Aukin vernd fyrir neytendur? Nei, þvert á móti. Heimilin mega bera verstu ágalla verðtryggingar en er torveldað að njóta hagræðis af henni.

Þurfa bankarnir á þessu að halda? Þeir ættu að vera einfærir um að sjá um eigin áhættustýringu.

Þriggja ára reglan er því ekkert annað en ríkisafskipti af frjálsum skiptum fólks við viðskiptabanka sína.

Reglan er á valdi Seðlabankans og mætti fella brott með einu pennastriki að fengnu samþykki ráðherra.

Og meðal annarra orða: Verðbætur reiknast í lögum um tekjuskatt sem tekjur. Þær eru það ekki heldur uppbót vegna eignarýrnunar og því rangt að telja þær til tekna til skattlagningar. Er einhver á vaktinni?