Þegar ég var yngri einkenndist lífið af óþolinmæði. Ég var alltaf hneykslaður eða móðgaður og sífellt á hraðferð. Þetta hélt ég að lagaðist með aldrinum og ég mundi breytast í þolinmóðan og æðrulausan Búdda í mannsmynd. Sú hefur þó alls ekki orðið raunin heldur hefur óþolið farið vaxandi. Ég nenni til dæmis ekki lengur að lesa langar færslur um þingkonuna í Valspeysunni eða drykkjuraus Framsóknarmanna á Búnaðarþingi. Drýldnar kenningar fyrrum forseta lýðveldisins um eðlilegar ástæður fyrir fjöldamorðunum í Úkraínu og hugleiðingar stjórnmálafræðinga um skoðanakannanir falla í þennan sama flokk.

Á dögunum þegar ég var á leið til vinnu var kynntur til sögunnar á RÚV íslenskufræðingur til að ræða um nýútkomna bók sína. Ég flýtti mér að skipta yfir á umfjöllun um heimaslátrun á annarri stöð í óþolinmæðiskasti.

Í starfi mínu hitti ég mikið af fólki sem er vart mælandi lengur á íslensku. Ensk orð og orðatiltæki eru því tamari en móðurmálið. Margir harma þetta en þessi íslenskufræðingur segir að um eðlilega þróun tungumálsins sé að ræða. Hin fræga þágufallssýki hljómar sem hunang í hans eyrum og ber vitni um aðlögunarhæfni málsins.

Það er til merkis um hækkandi aldur og geðvonsku að mér leiðist undanhald íslenskunnar. RÚV hefur algjörlega gefist upp gagnvart enskuslettum og beygingarvillum. Mér finnst það skrítið að íslenskufræðingur skuli reka flóttann og segja málvillur vera ásættanlega og eðlilega þróun.

Snorri frændi minn Sturluson vitjaði mín reyndar á dögunum í draumi og fletti þungbrýnn gegnum skrif nútímapólitíkusa og þekktra álitsgjafa. „Eigi skal sletta,“ sagði hann og hvarf síðan tárfellandi inn í eilífðina.