Í vikunni blossaði hann upp enn eina ferðina. Ó­þefurinn af nokkurra ára gömlum glóru­lausum á­kvörðunum stjórnar Sorpu. Þar sem sjö milljörðum af peningum skatt­greið­enda var bein­línis sólundað í tæki sem áttu að sjá um rusl, en reyndust vera drasl. Þið skiljið.

Nýjasti kaflinn í þessari harm­sögu úr­gangs á höfuð­borgar­svæðinu er að nú eigi að loka blessaðri þriggja ára gömlu flokkunar­stöðinni í Álfs­nesi.

Henda henni á haugana. Í nokkrum hand­hægum heima­tökum innan girðingar.

Ef­laust mætti hafa gaman af kald­hæðni slíkra ör­laga, ef ekki væri fyrir þá stað­reynd að búnaðurinn, sem reyndist ó­not­hæfur frá upp­hafi, kostaði íbúa höfuð­borgar­svæðisins ríf­lega einn milljarð króna.

Þeim peningum verður nú fargað. Vegna þess að nokkrir pólitíkusar í stjórnar­stólum á­kváðu að hunsa ráð­leggingar sér­fræðinga og taka illa í­grundaðar á­kvarðanir.

Þetta hefur nú­verandi fram­kvæmda­stjóri fyrir­tækisins meira að segja stað­fest og sagt að fjár­festingin hafi verið með öllu ó­skiljan­leg.

Höfum líka í huga að þessi milljarður bætist ofan á allt havaríið og klúðrið í kringum GAJU. Gas- og jarð­gerðar­stöðina sem fór einn og hálfan milljarð fram úr á­ætlun, kostaði á endanum fimm komma sex milljarða en lúrir nú ó­not­hæf í mygluðu hús­næði þétt upp við um­rædda flokkunar­stöð.

Þar standa þær nú saman þessar tvær stöðvar. Á haugunum. Eins og veg­legir minnis­varðar um af­glöp þeirra sem sí­fellt sækjast eftir á­byrgðar­stöðum, en bera svo auð­vitað enga á­byrgð þegar til kastanna kemur.

Ekki einu sinni þegar al­menningur fer að klóra sér í höfðinu yfir öllum ó­þarf­lega háu gjöldunum sem ó­hjá­kvæmi­lega fylgja vondum á­kvörðunum.

Þannig greiðum við nefni­lega úr vit­leysis­gangi í opin­berum rekstri á Ís­landi. Með ein­földum bak­reikningum inn um bréfa­lúgur í­búanna. En horfum svo fram hjá þeim sem eiga að bera á­byrgð á dellunni. Þeir sitja alltaf sem fastast. Hvað sem á dynur.

Kannski er það bara heppi­legasta fyrir­komu­lagið. Ein­hver þarf jú að manna alla fundina. Borða snitturnar, þiggja launin og taka fleiri á­kvarðanir um hluti sem þeir hafa ekki hunds­vit á. Þetta klúðrar sér ekki sjálft, sjáiði til. Ein­hver þarf að gera það.

Eða eins og einn þaul­reyndur sveitar­stjórnar­maður sagði eitt sinn þegar hann var spurður út rugl í rekstri fyrir­tækja á for­ræði sveitar­fé­laga:

„Byggða­sam­lag er það sem gerist þegar nokkur sveitar­fé­lög koma sér saman um að fara illa með peninga og veita lé­lega þjónustu.“