„Hvað felst í nafni?“ ritaði Shakespeare í Rómeó og Júlíu. „Það sem nefnt er rós hefði jafn ljúfan ilm með öðru nafni.“

Arthur Sac­kler fæddist í Brook­lyn-hverfi í New York sumarið 1913. Hann var sonur evrópskra inn­flytj­enda, Isa­ac og Sophie, sem dreymdi stóra drauma fyrir hönd Arthurs og yngri bræðra hans. Arthur hóf nám í læknis­fræði. Hann fékk sumar­starf sem texta­höfundur aug­lýsinga hjá lyfja­fyrir­tæki og upp­götvaði ó­væntan hæfi­leika til að selja. Þegar kreppan mikla skall á misstu Isa­ac og Sophie það litla sem þau áttu. Arthur sá fjöl­skyldunni far­borða og greiddi skóla­gjöld bræðra sinna sem einnig lærðu læknis­fræði. Árið 1945 fékk Isa­ac hjarta­á­fall. Á dánar­beðinum sagðist hann harma að arf­leiða þá ekki að neinum verald­legum gæðum. Hann sagðist þó á­nafna þeim öðru og meira. „Glati maður auði má alltaf vinna sér inn nýjan,“ sagði Isa­ac. „Glati maður æru­verðugu nafni sínu fæst það aldrei aftur.“

Árið 1955 upp­götvaði sviss­neski lyfja­fram­leiðandi Roche nýtt róandi lyf. Arthur Sac­kler var fenginn til að markaðs­setja það. Lyfið fékk nafnið Librium, sam­setning úr ensku orðunum „liberation“ (frelsun) og „equ­ili­brium“ (jafn­vægi). Í kjöl­farið fylgdi Valium en nafn þess var dregið af lat­nesku orði yfir að vera við góða heilsu.

Librium og Valium gerðu Arthur vell­auðugan. Hann lét sér þó ekki nægja leik að orðum og keypti lítið lyfja­fyrir­tæki handa sér og bræðrum sínum. Lyfja­fyrir­tækið átti mikilli vel­gengni að fagna og Sac­kler-fjöl­skyldan varð ein auðugasta fjöl­skylda Banda­ríkjanna. Fjöl­skyldan var lengi vel þekktust fyrir veg­lega styrki sína til lista- og menningar­stofnana. Það breyttist hins vegar ný­verið.

Guð­laugur Þór Þórðar­son um­hverfis­ráð­herra sagði í fréttum Sjón­varpsins í vikunni að virkja þyrfti meira á Ís­landi. Á­stæðuna sagði hann orku­skiptin, á­ætlanir um að endur­nýjan­legir orku­gjafar leysi af hólmi orku­gjafa á borð við kol og olíu sem menga meira. Frétta­maður benti á að 80 prósent af ís­lenskri raf­orku færi í stór­iðju og spurði hvort ekki mætti ein­fald­lega taka þá orku og nota í orku­skiptin. Guð­laugur tók hug­myndinni fá­lega. „Hvað ef allir gerðu það?“ spurði hann frétta­mann. „Hvað ef allar þjóðir færu þá leið að segja: Það sem að okkur snýr, við færum það bara til annarra landa? Þá næðist enginn árangur í bar­áttu gegn lofts­lags­vánni.“

Þótt lyfja­heitið Librium hafi verið kennt við frelsi og jafn­vægi var raun­veru­leikinn annar. Þótt orðið Valium hafi vakið hug­renninga­tengsl við góða heilsu varð lyfið í senn mest notaða og mest mis­notaða lyf­seðils­skylda lyf í heimi.

Ör­læti Sac­kler-fjöl­skyldunnar var iðu­lega því skil­yrði háð að nafn fjöl­skyldunnar sæist á á­berandi stað þar sem styrkja hennar naut við. Nafnið er þó ekki lengur þekktast fyrir vel­gjörðir við listir. Sac­kler-fjöl­skylduna þekkja nú flestir sem eig­endur Pur­du­e Pharma, lyfja­fyrir­tækisins sem fram­leiðir verkja­lyfið OxyContin og talið er hafa valdið ban­vænum ópíóíða­far­aldri sem nú geisar í Banda­ríkjunum og víðar.

„Hvað felst í nafni?“ Þegar Isa­ac Sac­kler, ætt­faðir Sac­kler-fjöl­skyldunnar, taldi sig á­nafna sonum sínum hinum mestu verð­mætum átti hanni ekki við stafa­rununa sem nafnið var sam­sett úr heldur orð­stírinn sem lá að baki henni.

Rétt eins og rós ilmaði jafn vel undir öðru nafni lyktar ó­þefur illa þótt við köllum hann angan. Full­yrðing um­hverfis­ráð­herra um að stór­iðja á Ís­landi sé lausn á lofts­lags­vanda jarðar er í besta falli út­úr­snúningur, versta falli skugga­legt stefnu­mál sem ræða þarf nánar. Stór­tækar virkjana­fram­kvæmdir eru enn fremur náttúru­spjöll, sama þótt um­hverfis­ráð­herra kalli þær hinu hug­ljúfa nafni orku­skipti.