Rithöfundar eru eins og jólasveinarnir. Það hefur lítið spurst til þeirra það sem af er ári. En þegar jólin nálgast hleypa þeir hömum, skipta úr snjáðum náttfötum í jólabúninginn, og halda til byggða. Vígreifir birtast þeir á síðum blaðanna, í sjónvarpinu og á samkomum til bæja og sveita með frumsamda bók undir handleggnum, dálítið örir af ótta við að það sjáist hvað þeir eru utangátta meðal manna. 

Þeir segja sögur, fara með gamanmál og reyna að mæla sem flest gáfulegt og láta eins og spekin hafi lostið þá á staðnum en ekki sé um að ræða ummæli sem æfð hafi verið í huganum vikum saman í veikri von um að einhvern tímann gæfist tækifæri til að mæla þau af vörum fram. 

Þeir láta eins og tilvist þeirra snúist um andann en ekki efnið, listagyðjuna en ekki saltið í grautinn, og dómur hinna dauðlegu skipti þá engu því lífið er stutt en listin eilíf. Bak við hátíðarskrúðann og heimasaumað sjálfsöryggið fela þeir hins vegar það sem þeir eru í alvörunni að hugsa: „Vill einhver elska 39 ára gamlan rithöfund?“ (Lesist með rödd Egils Ólafssonar við undirleik Þursaflokksins.) „Sem hefur ekki atvinnu. Vill einhver elska 39 ára gamlan rithöfund? Sem er ekkert rosalega reglusamur, á íbúð en hvorki bíl né þjóðbúningadúkku. Svar óskast sent, merkt einkamál … eða fæst í næstu bókabúð fyrir 4.699 krónur.“ En bak við hvern rithöfund sem starir bænaraugum af síðum blaðanna með svip sem segir „ég vil ekki þurfa að sækja um vinnu við að steikja hamborgara; af hverju hlustaði ég ekki á pabba sem sagði mér að læra lögfræði?“ (sjá dæmi á blaðsíðu 26 í Fréttablaðinu) stendur hópur af fólki sem sjaldan fær þakkir fyrir það þrekvirki sem það vinnur á degi hverjum. 

Jólagæs, einvígi og drykkjulæti 

Nýverið fagnaði breska bókaforlagið John Murray 250 ára afmæli sínu. Af því tilefni kom út bók með bréfum sem forleggjaranum hafa borist frá höfundum sínum í aldanna rás. Bréfin sýna að þótt kápu bókar prýði aðeins eitt höfundarnafn er bók sjaldan eins manns verk. Mikið mæddi á þeim sex kynslóðum Murray fjölskyldunnar sem fengust við það vandasama verk að halda mislyndum höfundum góðum í 250 ár. Jane Austen skrifaði útgefandanum og sagðist „mjög vonsvikin yfir … töfum hjá prentaranum“. William Wordsworth hellti sér yfir forleggjarann þegar honum fannst hann ekki svara bréfum sínum nógu hratt og sakaði hann um að telja sig „of mikið fyrirmenni til að sinna öðrum en hirð konungs, aðalsmönnum og rithöfundum sem væru í tísku“. David Livingstone var svo óánægður með teikningu af ljóni í bók sinni að hann húðskammaði útgefandann og sagði að „allir þeir sem vita hvernig ljón lítur út munu deyja úr hlátri“. 

Byron lávarður lét það bitna á útgefandanum þegar hann fékk slæma gagnrýni og bölsótaðist yfir „virði almenningsálitsins“ og „yfirlæti Englendinga“. Charles Darwin mislíkaði gagnrýni um Uppruna tegundanna: „Þessir mætu menn halda að þeir geti skrifað bókardóma án þess að vita skapaðan hlut um innihald bókarinnar sem um ræðir.“ William Makepeace Thackeray baðst afsökunar á drykkjulátunum í sér í bréfi. James Hogg kvartaði yfir því að hann væri svo blankur að hann ætti ekki fyrir jólagæs. Sonur Arthurs Conan Doyle, höfundar sagnanna um Sherlock Holmes, var svo reiður yfir ummælum sem bókagagnrýnandi lét falla um föður hans að hann krafðist þess að útgefandinn skipulegði einvígi milli sín og gagnrýnandans þar sem málið yrði útkljáð. 

Það fellur að og fjarar út 

Rithöfundar eru eins og jólasveinarnir. Senn hverfa þeir aftur til fjalla og sjást ekki aftur fyrr en að ári liðnu. Á meðan vinnur starfsfólk forlaga bak við tjöldin að því að tryggja að jólabókaflóðið sé jafnáreiðanlegt og sjávarföllin – það fellur að og fjarar út óháð duttlungum, dramatík og dívu-stælum. Á aðfangadagskvöld, þegar jólabækurnar hafa verið færðar úr gjafapappírnum, er rétt að skála í jólablandi fyrir þessum ósungnu hetjum jólanna