Bakþankar

Póstnúmer heimsins

Börnin mín eru bæði flutt að heiman. Það væri kannski ekki í frásögur færandi, nema þau eru bara 18 og 21 – og flutt til Danmerkur og Japan.

Ég kýs að líta svo á að tvö sjónarmið blasi við. Hið fyrra: Ég hef verið svo agaleg móðir að þau fara eins langt og þau treysta sér til, við fyrsta tækifæri.

Hitt sjónarmiðið, sem mér finnst öllu líklegra, og óneitanlega skemmtilegra að halla mér að, er að uppeldið hafi tekist svona vel. Ég hef talað fyrir því að skoða heiminn. Og að ein besta leiðin til þess sé að mennta sig erlendis. Ég hefi talað fyrir fleiru. Einsog að setja í vélina, ganga frá skónum í þar til gerða skóhillu, láta vita með hæfilegum fyrirvara hvort maður verði í mat. Sumt virðist hafa náð betur í gegn en annað.

Kaupmannahöfn þekki ég þokkalega. Var lykilstarfsmaður hjá Postvæsenet sumarlangt. Á háskólaárum í Frakklandi og Belgíu gerði ég það að leik mínum að spyrja Dani sem ég hitti hvaðan þeir væru. Hvidovre? Póstnúmer 2560! Þeir vissu ekki betur en að ég hefði alla Evrópu póstnúmeraða á takteinum og vakti það ákveðna lukku.

Japan er mér ókannað land og bögglaðist það fyrir móðurhjartanu. En í vikunni bar ég gæfu til að hitta Kyoto-farann á göngu í Garðastrætinu, með skólabróður sem var nýkominn heim frá Japan. „Og hér ert þú kominn aftur,“ kallaði ég glöð upp yfir mig og hef sjaldan orðið jafn fegin að sjá nokkurn mann, þó þetta væri í fyrsta sinni sem við hittumst. „Heill á húfi!“

„Ekki nóg með það,“ svaraði hann að bragði, „heldur miklu betri en þegar ég fór.“

Þess er óskandi að allir landkönnuðir okkar vilji koma heim aftur. Betri en þeir fóru. Og spássera eftir Garðastrætinu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing