Nýting skráðra fyrirtækja á hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar komst í hámæli í síðustu viku. Á meðal þeirra voru Skeljungur og Hagar sem höfðu varið töluverðum fjárhæðum í greiðslu arðs eða kaup á eigin bréfum á síðustu vikum. Umfjöllun fjölmiðla um þetta mál átti brýnt erindi við almenning og hneykslan vegna þess var skiljanleg. Bæði fyrirtækin sáu að sér og ákváðu að endurgreiða þann kostnað sem hafði fallið til vegna nýtingar þeirra á úrræðinu. Þetta voru hárrétt viðbrögð

Eftir sem áður er meginhlutverk fyrirtækja það að vinna innan þess ramma sem stjórnvöld marka þeim til þess að hámarka hag hluthafa. Hlutverk fyrirtækja er ein af undirstöðum þeirrar þjóðfélagsskipanar sem við búum við og henni verður ekki hnikað nema með skýrum vilja stjórnmálanna.

Sama gildir um stéttarfélög sem leitast við að hámarka hag félagsmanna og hika ekki við að boða til verkfalla á verstu tímum til þess að ná markmiðum sínum. Heilbrigðisyfirvöld þurfa sömuleiðis að gefa almenningi skýrar leiðbeiningar til þess að hjarðhegðun fólks taki mið af almannahagsmunum í stað eiginhagsmuna hvers og eins. Eiginhagsmunir eru í forgangi nema annað sé tekið skýrt fram.

Jafnvel stöndug fyrirtæki þurfa að grípa til uppsagna í niðursveiflum, sérstaklega þegar aðgerðir stjórnvalda valda samdrætti í starfseminni með beinum hætti. Ráðamenn ákváðu að setja ekki ströng skilyrði við notkun á hlutabótaleiðinni til þess að engar hindranir kæmu í veg fyrir aðalmarkmiðið sem er að viðhalda ráðningarsambandi milli launþega og vinnuveitenda. Þetta var með ráðum gert og félagsmálaráðherra hafði beinlínis hvatt atvinnurekendur til þess að „minnka frekar starfshlutfall starfsfólks tímabundið í stað þess að grípa til uppsagna“.

Síðan berast fréttir af því að stöndug fyrirtæki séu að nýta hlutabótaúrræðið og ráðamenn keppast um að lýsa yfir vanþóknun sinni. Forsætisráðherra sagði að ætlunin hefði ekki verið sú að stöndug fyrirtæki væru að nýta sér þetta neyðarúrræði. Það væri „óviðunandi“. Félagsmálaráðherra sagði að „gríðarlega ströng skilyrði“ þyrftu að vera fyrir því að fyrirtæki fengju opinbert fjármagn. Hann hafði þó ekki séð ástæðu til að setja ströng skilyrði í hlutabótafrumvarpið sem hann lagði sjálfur fyrir Alþingi.

Fyrirtæki eiga ekki að þurfa að rýna í óskýr lög til þess að finna duldar ætlanir eða meiningar stjórnvalda. Þau fylgdu hvatningu ráðherra og yfirlýstum tilgangi laganna. Ráðamenn þurfa hins vegar að líta í eigin barm og setja skýrarari leikreglur. Það er engin innistæða fyrir vanþóknun af þeirra hálfu.