Hæ! Þú ert að lesa baksíðu Fréttablaðs föstudagsins 5. desember 2012. Tímamótablað sem á eftir að verða safngripur vegna þess fólkið sem skrifar blaðið var ekki á ritstjórninni þegar það var brotið um og sent í prentsmiðjuna í gær.

Blaðamannskapurinn var bara í verkfalli þannig að þessi bakþanki hefði allt eins getað hljómað einhvern veginn svona:Meikaði það ekki og enginn nennir að beygja sig eftir dagblöðum sem gera út á skalla og auðar síður þannig að þá er skömminni skárra að kveða dýrar en taxtar og samningar kveða á um. Fyrir utan að ég vil ekkert vera í verkfalli! Blaðamennska er þannig fíkn að ég var með þetta ókláraða blað eins og njálg í heilaberkinum í gær. Eirðarlaus og pirraður.

Blaðamenn fara ekki í verkföll. Þeir skrifa um fólk sem fer í verkföll! Eða þannig ætti það að vera ef eigendur atvinnutækjanna gætu ekki endalaust skákað í skjóli þess að þrátt fyrir allt er þetta starf ekki bara hættulega ávanabindandi heldur yfirleitt líka alveg ofboðslega skemmtilegt. Eins og fíkniefni.

Verkfallið er í raun þvingað hópefli þar sem félagsskapur fjölmiðlafólks samhæfir bitra reynslu, styrk og daufar vonir svo að þau megi leysa sameiginlegt vandamál sem snýst miklu frekar um blaðamannlega reisn og virðingu fyrir starfi sem er ekki á færi hvaða bjána sem er þótt brjálaðir launataxtarnir bendi til annars.