Óskhyggja er vonin um að eitthvað gerist sem litlar eða jafnvel engar líkur eru á að raungerist.

Óskhyggjan lætur sér yfirleitt ekki segjast. Mín ólseiga óskhyggja er, var og verður líklega áfram að ég nái neðri mörkum kjörþyngdar minnar. Lesendum til upplýsingar hefur það aldrei gerst þau 35 ár sem ég hef reynt við markmiðið.

Ég ætti auðvitað að láta mér segjast; það eru litlar líkur á að endurtekin hegðun (les: of lítil hreyfing, of mikill matur) skili öðru en sama árangri.

Nú um stundir ríkir nokkur óskhyggja í samfélaginu í baráttunni við Covid-19. Hún lýtur að því að nú geti lífið færst í samt horf og fyrir Covid-19, en að niðurstaðan verði samt ekki sú að smitum fjölgi eða að álag á heilbrigðiskerfið okkar verði of mikið.

Við ættum auðvitað að láta okkur segjast, það eru litlar líkur á að endurtekin hegðun (les: grímulausir hópfagnaðir með knúsum) skili öðru en sömu niðurstöðu.

Loks gætir óskhyggju í baráttunni við loftslagsvána. Það er morgunljóst að Ísland er methafi í losun koltvísýrings en nú er helst að skilja að framlag Íslands til baráttunnar við losun koltvísýrings, sem er helsta ástæða loftslags­várinnar, sé í því fólgin að auka losun koltvísýrings.

Það eru litlar líkur á að endurtekin framkvæmd (les: virkja meira, losa meira) skili öðru en sömu niðurstöðu.

Niðurstaða: ég verð áfram í efri hluta kjörþyngdar, Covid-19 heldur eitthvað áfram og Ísland verður áfram koltvísýringslosunar­sóði, en nú í þeirri von að okkar losun verði samt „best í heimi“.

Það er ekkert víst að þetta klikki.