Landið okkar treystir á samgöngur á sjó og í lofti. Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað fyrir rúmum hundrað árum þótti stofnun þess svo mikilvæg að félagið var nefnt Óskabarn þjóðarinnar. Það var líklega réttnefni, enda mikilvægi tengingar við umheiminn orðin mönnum ljóst.

Fyrsti vísir að því sem við nú þekkjum sem Iceland­air varð til fyrir rúmum áttatíu árum þegar Flugfélag Akureyrar var stofnað. Það flutti svo höfuðstöðvar sínar til Reykjavíkur skömmu síðar og nafninu var breytt í Flugfélag Íslands. Þannig hófst saga farþegaflugs milli landa á vegum Íslendinga sem rekur sig allt til okkar daga. Saga farþegaflugs hér á landi er ekki áfallalaus. Flugfélög komu og fóru, ýmist sameinuðust eða gáfust upp í erfiðu rekstrarumhverfi. Það kennir að eins bráðnauðsynlegt og er að til og frá landinu séu greiðar samgöngur fyrir fólk og vörur, er vandfundinn áhættusamari atvinnurekstur. Jafnframt bendir ýmislegt til að yfir flugi sé ævintýrablær sem margir sogast að þó að þeir eigi ef til vill ekki til þess erindi.

Síðari hluta þessarar sögu hafa erlend flugfélög lagt leiðir véla sinna hingað og í reynd hefur framboð flugferða héðan og hingað verið meira en búast mætti við alla jafna – allt þar til viðbrögð ríkja víða um heim við faraldrinum eyðilögðu það allt. Nú fljúga hingað og héðan örfáar vélar á viku og Flugstöð Leifs Eiríkssonar er mestanpart auð. Það er dapurlegt vitni um eyðingarafl faraldursins og viðbragða við honum.

Mitt í þessu öllu hefur Icelandair staðið í harðri baráttu fyrir tilvist sinni. Baráttan var reyndar hafin nokkru fyrir faraldurinn, þegar ótrúleg atburðarás leiddi til þess að endurnýjun flugflota félagsins fór í vaskinn á síðasta ári.

Barátta Icelandair hefur einkennst af miserfiðum samningum við flugstéttir, lánardrottna, flugvélaverksmiðjur, fjármálafyrirtæki og ríkið um ríkisábyrgð.

Síðasti hluti þessa umfangsmikla verkefnis var að afla félaginu að minnsta kosti 20 milljarða króna í nýju hlutafé. Á því hékk fjöldi annarra atriða.

Það er ekki vafi á að Icelandair er grundvallarfyrirtæki hér á landi og öflug starfsemi þess mun skipta sköpum þegar líf færist í eðlilegra horf eftir faraldurinn og fólk fer að ferðast á ný.

Það þarfnast skýringa að einn fjölmennasti og öflugasti lífeyrissjóður landsins hafi ekki tekið þátt í útboðinu. Ofan í kaupið er hann sá sjóður sem flestir starfsmenn Icelandair greiða iðgjöld til og til þessa, stærsti hluthafinn. Ekki er víst að allir sem greiða iðgjöld í sjóðinn séu sáttir við þá ákvörðun. Skugga­stjórnunarhættir forystumanns verslunarmanna hafa þar sjálfsagt ráðið miklu og sú íhlutun hlýtur að verða til skoðunar hjá eftirlitsaðilum í framhaldinu.

Nú liggur fyrir að viðtökur fjárfesta voru þannig að allt það röfl skiptir ekki máli. Nýtt óskabarn þjóðar er orðið til með ellefu þúsund hluthöfum. Eftir allt virðist augljóst að hlýir straumar liggja til félagsins.

Niðurstaðan er sigur og markar fyrsta skrefið í endurreisninni þegar efnahagslega óveðrið gengur niður.