Þrír ósiðir sem við ættum að láta af. Ekki pósta niðurstöðum úr einhverjum leik á Facebook af því þér er til dæmis sagt að þú tilheyrir 1% íbúa í heiminum sem geti lesið texta á hvolfi eða sjáir rauðan lit á brúnum fleti. Niðurstöðurnar eru akkúrat öfugar, nefnilega að 99% allra geta lesið textann. Þú opinberar aðeins eigin hugmyndir um vitsmunalega yfirburði þína frammi fyrir vinum þínum og þú gefur einhverjum siðlausum markaðsmönnum aðgang að persónugreinanlegum gögnum um þig í gegnum samfélagsmiðla þína. Ekki pósta myndum af barninu þínu í tíma og ótíma. Það er sannarlega freistandi fyrir okkur sem eigum engin myndbönd af okkur sem smábörnum að bæta fyrir það með samviskusamlegri skrásetningu á lífi barna okkar en látum það duga. Ef þetta er hugsað fyrir fjölskylduna deildu þá myndunum á lokuðu svæði, í hópum, skilaboðum og svo framvegis. Börn eiga rétt á einkalífi og mundu að Internetið gleymir engu. Rassamyndin í dag getur orðið tilefni til stríðni og leiðinda fyrir barnið þitt á morgun. Við þekkjum það öll að þekkja barn úti í bæ með nafni og í sjón eftir að hafa einungis séð það á samfélagsmiðlum. Látum börnin njóta vafans um hvað er rétt og rangt. Fyrir utan að barnastjörnum reiðir sjaldnast vel af í lífinu.

Ekki kaupa nammi fyrir vinnufélagana þegar þú kemur frá útlöndum. Þetta er gamall ósiður frá tímum þegar enginn fór til útlanda nema efnafólk og eina sælgætið sem í boði var hér á landi var suðusúkkulaði, apótekaralakkrís og kandís. Íslendingar borða nógu mikinn sykur fyrir og nægt úrval er af sælgæti í öllum verslunum. Eina undantekningin er eitthvert mjög furðulegt, skemmtilegt og framandi sælgæti eins og sykurhúðaðir þurrkaðir geitapungar.