Nú þegar við búum í fjórða sinn við hertar samkomutakmarkanir er ekki laust við að aðeins hafi dregið af mannskapnum sem fagnað hafði endurheimtu frelsinu.

Rétt eins og í fyrri skipti sýnist sitt hverjum um aðgerðir stjórnvalda og útfærslur þeirra. Er eðlilegt að þúsundir hópist saman við spúandi eldgíg en sé bannað að nýta sér skíðasvæði landsins? Hvað sem fólki finnst er víst að þau sem sitja uppi með ákvarðanirnar eru ekki öfundsverð af hlutskiptinu.

Viðbrögð leikskólakennara við takmörkunum sem settar voru á í liðinni viku hafa aftur á móti verið svolítið á skjön við restina. Á meðan helst er kvartað yfir hertum reglum og lokunum finnst þeim ekki nóg gert og hafa forsvarsmenn leikskólakennara og -stjóra birst í fjölmiðlum og kvartað yfir því að vinnustaðir þeirra skuli enn vera opnir.

Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla, sagði frá því í Silfrinu á RÚV um helgina að starfsfólk leikskóla væri bæði þreytt og hrætt við veiruna. Með fullri virðingu fyrir tilfinningum þeirra sem annast yngstu Íslendingana, held ég að það sama megi segja um stóran hluta þjóðarinnar.

Sigurður sagði að „selja þyrfti“ leikskólakennurum hugmyndina um að halda opnu. Um leið sagðist hann sjálfur hafa fundað með sóttvarnalækni sem hefði útskýrt ákvörðunina og fyrir henni haft góð og gild rök. Þórólfur Guðnason hefur ítrekað svarað ákalli leikskólastarfsfólks með því að smithætta sé ekki aukin hjá börnum á leikskólaaldri. Enn sé notast við sömu nálgun og gert hafi verið allan faraldurinn og ekki hafi komið fram vandræði í sambandi við hana.

Hvers vegna þykir starfsfólki leikskóla því áhættan of mikil núna? Getur ekki verið að yfirmenn þeirra hefðu átt að halda þeim betur upplýstum um staðreyndir mála – og „selja þeim“ betur hugmyndina um að óhætt væri að mæta til vinnu rétt eins og gert hafi verið allan faraldurinn?

Reynt hefur verið að gæta meðalhófsreglu í sóttvarnaaðgerðum og lokun leikskóla myndi þýða verulega mikla röskun á starfsemi í landinu. Heilbrigðiskerfið væri ein þeirra stofnana sem myndu finna fyrir högginu.

Gild rök verða að fylgja kröfu um lokun leikskóla. Þau hafa ekki komið fram. Aftur á móti virðist skorta á upplýsingagjöf til langþreytts starfsfólksins. Á tali forsvarsmanna þeirra virðist óttinn að miklu leyti snúast um hið nýja breska afbrigði, en samkvæmt upplýsingum frá Norðurlöndunum er ekki að merkja aukna smithættu hjá börnum undir sex ára aldri. Eins væri ekki úr vegi að koma leikskólastarfsfólki framar á forgangslista í bólusetningum. Alla vega að þau væru fremst í áttunda hópnum sem þau nú eru sett í ásamt fjölmörgum fleirum.

Að þessu hefðu stjórnendur leikskóla átt að vinna í stað þess að ala enn frekar á ótta starfsfólks síns og fara fram á að það sé sent heim fram yfir páska.

Við þurfum síst enn frekari lömun á atvinnustarfsemi í landinu.