Eitt kvöld fyrir skömmu kom ungur maður að hinu stórfenglega Sólfari Jóns Gunnars Árnasonar við Sæbraut. Hann átti í einhverjum vandræðum með stillingu á símanum sínum og þar sem fleiri en hann voru við Sólfarið á þessu fagra kvöldi, bað hann um aðstoð. Hún var veitt og þessa örlitlu hjálp vildi hann endilega launa með vænu súkkulaðistykki. Í kjölfarið upphófst spjall. Ungi maðurinn sagðist vera Sýrlendingur sem hefði fengið hæli hér á landi. „Í fyrsta sinn á ævinni líður mér eins og ég sé öruggur,“ sagði hann. „Ég vakna á hverjum morgni, fullur léttis, hér er ekkert sem ógnar mér, ekkert stríð, engar hörmungar. Ég er svo óskaplega þakklátur fyrir að vera hér.“ Spurður hvort fólk kæmi vel fram við hann, sagði hann svo vera, Íslendingar væru yndislegir. „Ég get eiginlega ekki talað um hversu miklu máli það skiptir mig að fá að vera hér. Ég fer næstum því að gráta þegar ég tala um það,“ sagði hann. Svo horfði hann í átt til Sólfarsins, hafsins og fjallanna og sagði: „Þetta er fallegt.“

Þessi ungi maður er hamingjusamur og sáttur, vera hans hér á landi hefur gjörbreytt lífi hans. Honum finnst vel tekið á móti sér og vill hvergi annars staðar vera. Ekki er jafn vel tekið á móti öllum sem hingað koma frá öðrum löndum, hvort sem þeir koma sem flóttamenn eða hælisleitendur. Útlendingaandúð finnst svo sannarlega hér á landi, þótt blessunarlega sé hún ekki almennt grasserandi á meðal þjóðarinnar. Það eru alltaf einhverjir sem setja fyrir sig uppruna fólks, húðlit þess og trúarskoðanir. Þetta er vitanlega ekkert annað en mannfyrirlitning, og hana ber aldrei að afsaka.

Mannfyrirlitning opinberast einnig í viðhorfi of margra til erlendra einstaklinga sem hingað koma til að vinna í lengri eða skemmri tíma. Alkunna er að einstaklingar illa haldnir af gróðahyggju, líta ekki á það fólk sem manneskjur sem koma eigi vel fram við, heldur sjá þeir þetta fólk sem gangandi gróðalind fyrir sig. Þannig er svindlað á þessu fólki í launum og aðbúnaði. Einnig er talið næsta eðlilegt að smala hópi erlends fólks saman í óíbúðarhæft húsnæði, þar sem nánast allt skortir, og hirða af því okurleigu. Því fleirum sem hægt er að hrúga inn á lítið svæði því meiri verður gróðinn. Hugsunin á bak við athæfi eins og þetta er einkar ógeðfelld. Í þeirri hugsun býr engin virðing fyrir manneskjum, engin hlýja og ekki vottur af samkennd. Manneskjan er einungis jafna í reikningsdæmi og öryggi hennar skiptir engu máli. Öll hugsun um hana byggist á því hversu mikið sé hægt að græða á því að svína á henni, án þess að maður sjálfur lendi í vandræðum.

Kerfið á ekki að vernda einstaklinga sem koma svo illa fram við aðra og það á ekki að sýna skeytingarleysi þegar kemur að því að vernda þá sem verða fyrir þessari illu meðferð. Hér á landi er ítrekað brotið svívirðilega á réttindum erlends fólks og lítið sem ekkert er aðhafst til að breyta því. Ekki verður það kallað annað en þjóðarskömm.