Kynningarefni þjóðkirkjunnar fyrir Sunnudagaskólann, þar sem sjá má mynd af eldhressum Jesús Kristi, dansandi undir regnboga, skeggjuðum með brjóst, hefur vakið athygli undanfarið.

Ef markmiðið hefði verið að skapa umtal, þá væri þetta algjör negla hjá þjóðkirkjunni en líklega var takmarkið annað. Hin sterka staða sem þjóðkirkjan hefur haft hér á landi sögulega séð fer dvínandi og eðlilegt að kirkjan reyni að sporna við þeirri þróun. Ár frá ári fjölgar þeim sem kjósa að standa utan trúfélaga og telja þeir í dag í kringum fimmtung landsmanna. Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá fækkaði mest í þjóðkirkjunni af öllum trúfélögum það sem af er liðið þessu ári og í vikunni eftir þetta útspil kirkjunnar var merkjanleg fjölgun í úrsögnum.

Það má velta því fyrir sér hverjir bregðast svo ókvæða við. Líklega eru það ekki þeir sem tilheyra frjálslyndasta armi safnaðarins, þeir eru löngu farnir.

Þeir sem kveðja núna vegna þessara myndbirtinga gætu haft alla vega tvær ástæður til þess: Annars vegar vegna þess að viðkomandi er transfób. Hins vegar vegna þess að viðkomandi hefur alist upp með þjóðkirkjunni, hefur lesið Biblíuna, trúir, en finnur hvergi í Biblíunni stað þar sem hægt er að kvengera Jesú.

Af öllu því sem í Biblíunni eru tíundað um dvöl Jesú á meðal manna er ólíklegt að riturum hennar hafi yfirsést að hann hafi verið með fagursköpuð kvenmannsbrjóst. Það hefði breytt ýmsu um túlkun orða hans og gjörða. Það er nóg að hafa stundað leikmannslestur á Biblíunni til að setja grundvallarspurningarmerki við þetta útspil sem í raun er gagnger endurskoðun á persónu Krists.

Margar spurningar vakna: Hver ákvað þetta? Hvernig? Hversu margir og í hvaða umboði? Hvert var markmiðið? Nokkrum dögum eftir myndbirtinguna baðst kirkjuþing afsökunar. Á hverju? Hver er eða var stefnan, eða skilaboðin?

Biskup Íslands hefur beðið samkynhneigða afsökunar fyrir hönd kirkjunnar en kirkjan var eins og frægt er treg til að viðurkenna hjónabönd þeirra. Ekki er liðinn nema einn áratugur frá því að lagabreyting var gerð og hjónabönd samkynhneigðra voru leyfð. Nú virðist kirkjan ætla að stíga skrefi lengra. Hún minnir á miðaldra pabba sem hamast við að sýna fram á að hann sé ekki gamaldags afturhaldsseggur heldur flippaður og hress gaur sem fílar alla.

Ég hef ekki heyrt í þeim sem fannst þetta útspil kirkjunnar hafa talað til sín. Viðbrögðin eru alls konar, allt frá reiði yfir vanhelgun og yfir í aðhlátur.

Svo virðist sem lagt hafi verið af stað án þess að átta sig á markmiðinu. Ef ætlunin var að fá transfólk til að streyma í messu mistókst það og hefur kirkjan verið sökuð um „pink-washing“ – að gefa sig út fyrir að vera vinveitt LGBTQ-fólki þótt ekki sé endilega innistæða fyrir því.

Skiljanlega er erfitt fyrir kirkjuna að sigla inn í nútímann vopnuð tvö þúsund ára gömlum leiðarvísi. Eitt er víst að tímarnir breytast, og mennirnir sem betur fer með. Þetta gæti orðið stormasamt samband.

Kirkja sem giftist samtímanum verður fljótt ekkja, og ein.