Ég rakst á fyrrverandi vinnufélaga mína í skírnarveislu um daginn. Þegar ég sá þau síðast voru þau nýbyrjuð að stinga saman nefjum en eru nú komin á þriðja barn. Við náðum einstaklega vel saman þegar við unnum saman á leikskólanum og ég þori að fullyrða að þau myndu gefa mér fín meðmæli sem þriðja hjóli ef ég þyrfti á þeim að halda fyrir ferilskrána.

Það var gaman að rekast aftur á gömlu kollegana sem tókst meistaralega til við að sinna mér í bland við börnin þrjú sem ýmist skriðu eða slefuðu yfir veislugólfið. Þegar við kvöddumst skelltum við í sígilt „það væri nú gaman að fara að hittast aftur“ þótt við höfum öll vitað undir niðri að það sé ekki að fara að gerast. Á leiðinni heim úr veislunni fór ég að velta því fyrir mér af hverju það væri.

Leiðinlegi sannleikurinn er sá að á einhverjum tímapunkti þá á maður nóg af vinum. Maður er félagslega saddur. Þrátt fyrir að ég hafi átt svona margt sameiginlegt með foreldrunum þá held ég enn þá sambandi við annað fólk sem á blaði uppfyllir ekki nærri því jafnmargar hæfniskröfur til vináttu. Ég hef einfaldlega þekkt þá vini lengur og við höfum mótað tengsl á því einu að vera til hverjir í kringum aðra.

Þau Orri og Una eiga þannig fast sæti á lista fólks sem mér er hlýtt til og mun styðja í gegnum súrt og sætt með áreynslulausum lækum og brosköllum á samfélagsmiðlum um ókomna tíð. Ég vona að ég eigi fast sæti á þeirra lista.