Það er kaldranaleg staðreynd að í þjóðfélagi okkar er langveikt fólk sem á ekki annan kost en að búa inni á öðrum, kemst ekki úr foreldrahúsum, býr í bílnum sínum eða jafnvel í tjaldi. Birtingarmynd þess að fátækt er nánast óhjákvæmilegur fylgifiskur örorku. Möguleikar örorkulífeyrisþega til þess að eignast sitt eigið húsnæði hafa verið mjög takmarkaðir. Samkvæmt könnun sem ÍLS gerði árið 2018 eru um 75% launþega í eigin húsnæði og 96% eftirlaunaþega en aðeins 40% öryrkja.

Mótun húsnæðisstefnu í kjölfar Lífskjarasamninga

Það var fagnaðarefni þegar verkalýðshreyfingunni var boðið að taka þátt í mótun húsnæðisstefnu ríkisstjórnarinnar við gerð Lífskjarasamninganna vorið 2019. Öryrkjabandalagið hefði þó einnig átt að koma að ráðagerðinni, enda ekki aðeins markmiðið að bregðast við vanda ungs fólks, heldur einnig tekjulágra. Þar telja öryrkjar í eða án atvinnu hátt í 20 þúsund manns.

Á Íslandi er rík hefð fyrir því að fólk eigi sitt húsnæði sjálft. Hugsanlega má rekja það aftur til aldamótanna 1900 þar sem konur og fólk í fátækt höfðu ekki kosningarétt. Aðeins þeir sem áttu eitthvað undir sér. Það var því hugsanlega hluti af lýðræðisvitund verkalýðsins, að koma hér upp verkamannabústaðakerfi þar sem fólk gat eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Við vorum ólánsöm að leggja það kerfi af og síðan hafa verið gerðar ýmsar mistækar tilraunir til að auðvelda efnalitlu fólki að eignast húsnæði.

Hlutdeildarlán – ekki fyrir öryrkja

Í vor lagði félags- og barnamálaráðherra fram frumvarp um svokölluð hlutdeildarlán. Lánin eiga að aðstoða ungt og tekjulágt fólk við að brúa eiginfjárkröfu við íbúðarkaup og eru lánuð á 2. veðrétti vaxtalaust á eftir hefðbundnum íbúða­lánum. Öryrkjabandalagið sendi inn umsögn um frumvarpið og lagði þar meðal annars til rýmkun á lánstímanum svo líklegra væri að örorkulífeyrisþegar réðu við afborganir og kæmust í gegnum greiðslumat. En ríkisstjórnin ákvað að fara aðra leið og stytti lánstímann úr 25 árum í 10 með heimild um undanþágu til framlengingar 5 ár í senn. Þetta gagnrýndi ÖBÍ með vísan í Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland er aðili að. Þar segir að „aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar vegna fötlunar... og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að því m.a. með því að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi hins opinbera.“

Þá er þetta undanþáguákvæði um framlengingu 5 ár í senn að því tilskildu að lántaki sæki námskeið í fjármálalæsi umhugsunarvert, enda slík krafa óþekkt. Þá er einnig komið fram við lántakendur eins og leigjendur en ekki kaupendur húsnæðis í ljósi þess að vera meinað að framleigja húsnæði sitt.

Annað skilyrði er að aðeins er lánað á höfuðborgarsvæðinu fyrir nýbyggingum. Þetta þykir okkur miður enda eldra húsnæði jafnan ódýrara og mun eðlilegri kostur sem fyrsta eign. Auk þess takmarkar þetta möguleika fólks til að velja sér hverfi til búsetu og til að halda sig við tiltekið skólahverfi. Með þessu er beinlínis verið að úthýsa fötluðu fólki af ákveðnum svæðum borgarinnar.

Þá er það skilyrðið sem snýr að því að húsnæðið sé af hagkvæmri stærð og gerð en HMS er gert að meta hvort íbúð uppfylli þetta skilyrði. Þetta er afar óljóst en hreyfihamlaðir þurfa meira rými vegna hjálpartækja og stærri salerni, jafnvel auka herbergi fyrir NPA-starfsmenn. Þess utan er ekki stafkrókur í lögunum um algilda hönnun en slík hönnun táknar hindrunarlaust umhverfi fyrir einstaklinga með fötlun.

Í lögunum er tekið fram að eigi umsækjandi meira en 5% eigið fé komi það til lækkunar á hlutdeildarláni. Í umsögn ÖBÍ er bent á að fatlað fólk getur verið í þeirri stöðu að hafa eftir slys fengið skaðabætur sem eiga að endast þeim út ævina. Sumir þurfa einnig að eiga dýra sérútbúna bíla og gætu átt sjóð til slíkra kaupa eða hreinlega viljað eiga varasjóð. Því verður að tryggja að slíkt komi ekki til lækkunar lánsins.

Fyrstu kemur fyrstur fær

Það er sorgleg staða að ríkið skuli setja kvóta á lántökuna á þann hátt að fólki geti verið synjað um lán þrátt fyrir að uppfylla öll skilyrði. Getur það virkilega staðist jafnræðisreglur og lög?

Þá vekur það furðu að þarna eru tilgreindir mögulegir samningar byggingaverktaka við HMS án ítarlegra útskýringa.

Öryrkjabandalagið harmar að ríkisstjórnin hafi hvorki ráðfært sig við það í upphafi, né hlustað á athugasemdir þess við frumvarpið. Örorkulífeyrisþegar verða að hafa möguleika á að nýta sér lánskost sem þennan. Til þess að það sé raunveruleikinn verður að hækka örorkulífeyri og draga úr skerðingum. Fatlað fólk verður að búa við það öryggi að geta átt eigið húsnæði, eins og aðrir en ekki treysta eingöngu á erfiðan leigumarkað. Þá verða að vera í boði húsnæðislán sem taka tillit til framfærslumöguleika fatlaðs fólks, mögulegra eigna, skaðabóta og annarra þarfa. Við bíðum nú þeirra úrbóta.