Á sama hátt og þrýstingur byggist upp í jarðskorpunni og lætur loks undan með misjafnlega sterkum skjálfta er augljóst af yfirlýsingum verkalýðsforkólfa landsins að undanförnu að það má búast við hvelli við samningaborðið í Karphúsinu í haust.

Þeir eru enda vel nestaðir, úr heldur óvæntri átt, en segja má að ríkisvaldið og sveitarfélögin hafi skrifað fyrir þá kröfugerðina að þessu sinni, en sjaldan og sennilega aldrei hefur hið opinbera gefið jafn rækilega tóninn á launamarkaði með hækkunum og ofborgunum og yfirboði á markaði, svo einkageiranum svíður undan.

Sukk?

Fyrir atvinnurekendur hlýtur það að vera dagleg pína að heyra og lesa af hverri launasprengjunni af annarri í boði ríkis og sveitarfélaga, en einu gildir hvar menn ber niður í þeim efnum, nýráðnir sérfræðingar á stofnunum kerfisins sleikja út um vegna launakjaranna og innan sveitarfélaganna maka nýkjörnir bæjarfulltrúar krókinn – og þá ekki síður sveitarstjórar, en engin regla virðist vera á því hver laun þeirra eru eftir stærð og íbúafjölda bæjanna og þar með verkefnunum sem þarf að sinna.

Í Ölfusi og úti á Nesi toppa menn til dæmis borgarstjórann – og fara létt með það.