Ég hef greint sjálfan mig með eitthvað sem ég vil kalla óróablæti. Þetta byrjaði í árslok 2019 þegar appelsínugul stormviðvörun var gefin út í fyrsta sinn og borgarbúar keyptu sér vikubirgðir af snakki til að lifa af nokkurra klukkustunda inniveru. Snakkstormurinn olli ekki miklu tjóni en hann var fyrirboði þess sem verða vildi. Fljótlega komu f leiri marglitar stormviðvaranir, jarðhræringar á Reykjanesi, kórónaveiran, Pfizer-tilraunin sem kom svo reyndar ekki og núna væntanlegt eldgos. Ég er orðinn háður þessu, les fréttamiðla af ákefð, horfi á alla blaðamannafundi, ligg yfir tölfræði og rýni af ákefð í svipbrigði vísindaog embættismanna þegar þeir velta vöngum yfir mögulegum sviðsmyndum. Ég fæ ekki nóg.

Upp á síðkastið hafa jarðhræringarnar á Suðurnesjum haldið mér við efnið. Þótt vísindamenn hafi ítrekað og endurtekið sagt að hættan sé afar lítil þá nennir enginn að hlusta á svoleiðis partýspilla. Óróablætið þarf upplýsingar, ólíklegar sviðsmyndir og hasar.

Þetta náði ákveðnu hámarki um daginn þegar Kristján Már Unnarsson var í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 úr þyrlu á skjálftasvæðinu. Telma Tómasson byrjaði á að spyrja Kristján hvort hann væri óttasleginn. Hann játti því. Ég dró andann djúpt og teygði mig lengra ofan í snakkpokann. Sá fyrir mér hvernig illvígar gostungurnar myndu reyna að læsa sig í þyrlu okkar besta fréttamanns sem þyrfti jafnvel að hanga utan á henni og nota gula vestið sitt til að slökkva eldinn. Hann myndi svo f ljúga þyrlunni sjálfur heim í gegnum rauða stormviðvörun og loftslagsbreytingar og jafnvel með kórónaveirusmitaðan farþega um borð. Í beinni allan tímann.