Virðing íslenskra ráðamanna við náttúru landsins á að vera sjálfsögð en ekki valkræf dyggð. Gera verður þá kröfu til ráðamanna að þeir sýni náttúru Íslands að minnsta kosti sömu virðingu og rekstri þeirra fyrirtækja sem stunda sjókvíaeldi hér við land. Fróðlegt er að horfa upp á þá staðreynd að þau fyrirtæki eru meðhöndluð eins og þar fari sprotafyrirtæki sem þræði í rekstri sínum brautir nýsköpunar en ekki að þar fari gamalgróin erlend stórfyrirtæki sem hafa stundað slíkt eldi um langan aldur. Stórfyrirtæki sem í sínu föðurlandi þykir eðlilegt að borga fullt verð fyrir eldisleyfi, úttektir og eftirlit en hérlendis verður að slá í púkk með skattfé almennings svo öruggt sé að eigendurnir missi ekki úr svefn. Stórfyrirtæki sem í eigin föðurlandi stæra sig af því að tileinka sér ábyrgar eldisaðferðir sem eru að ryðja sér til rúms - stórfyrirtæki sem hérlendis eru hæstánægð með að notast við óábyrgt eldi í opnum sjókvíum. Aðferðafræði sem felur í sér erfðablöndun íslenskra laxastofna frá hendi norskættaðra eldislaxa úr sjókvíum og einnig afföll náttúrlegra laxa og göngusilunga fyrir tilstilli laxalúsar sem runnin er úr þeim kvíum.

Á næstliðnum árum hefur með fulltingi stjórnvalda verið byggt upp eldi á laxi í opnum sjókvíum. Það hefur verið gert án þess að eðlileg krafa hafi verið gerð um að lagaumhverfið tryggði svo sem unnt væri að sá iðnaður gengi ekki á tilvistargrundvöll náttúrulega stofna lax og göngusilungs. Í ljósi þess hefði mátt halda að lagafrumvarp það sem nú er í meðförum Alþingis (Þingskjal 1060 - 647. mál), sem marka skal starfsumhverfi laxeldis í opnum sjókvíum, hefði sjálfkrafa falið í sér að þar yrðu tryggðar svo sem verða mætti varúðarráðstafanir gagnvart náttúrunni sem sá iðnaður vegur svo mjög að - en svo var ekki. Þann 20. maí birti atvinnuveganefnd Alþingis, sem sér um lokaútfærslu frumvarpsins eftir að umsagnir hafa borist, breytingartillögur meirihluta nefndarinnar við frumvarpið. Þær áherslur sem þar birtust staðfesta hve skammt var gengið til að tryggja tilvistarrétt íslenskra laxastofna. Vegna þessa þá er deginum ljósara að eina færa leiðin til að ganga frá nauðsynlegum breytingum á frumvarpinu er sú að fresta afgreiðslu þess til næsta þings. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að þær mjög svo alvarlegu brotalamir sem er að finna í frumvarpinu verði innlimaðar í lagaumhverfi fiskeldis með tilheyrandi skaða fyrir íslenska laxastofna á landsvísu sem og göngusilungsstofna næst eldissvæðunum. Nokkuð sem myndi með skýrum hætti ganga í berhögg við þá ábyrgu náttúrurvernd sem Íslendingar hafa kennt sig við, og er í reynd skylt að sinna með tilliti til þeirra laga sem þeir hafa undirgengist. Ef ekki er brugðist við með endurbótum á frumvarpinu þá munu berskjaldaðir laxastofnar hverfa snemmhendis af sjónarsviðinu - og líkt og saga sjókvíaeldis á Atlantshafslaxi sýnir, þá munu einnig stór skörð verða höggvin í raðir annarra hérlendra laxastofna fari svo sem horfir.

Síðustu fjögur ár hefur greinarhöfundur vaktað áhrif sjókvíaeldis á lax- og sjóbirtingsstofna í þremur ám í Arnarfirði. Þær rannsóknir mörkuðu jafnframt upphaf þess hérlendis að fylgst væri ár frá ári með ástandi fiskistofna í ám í næsta nágrenni eldis á laxi í opnum sjókvíum. Greinarhöfundur var fyrstur til að benda opinberlega á þá alvarlegu galla sem er að finna í núgildandi áhættumati Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun sem nú liggur fyrir að lögfesta. Auk þess benti ég opinberlega á þá miklu hættu sem felst í því að bregðast í engu við tilvistarvanda lax- og göngusilungsstofna næst sjókvíaeldissvæðunum vegna laxalúsar og fisksjúkdóma.

Jóhannes Sturllaugsson líffræðingur við rannsóknir í Fífustaðadalsá í Arnarfirði.
Golli

Sjókvíaeldi er umhverfisógn

Skaðann sem sjókvíaeldið veldur á lífríkinu þarf að lágmarka með því að bæta lagaumgjörðina og því er eina færa leiðin sú að fresta afgreiðslu frumvarpsins til næsta þings. Ef meirihluti ráðamanna nú um stundir bæri fulla virðingu fyrir tilvist íslenskra laxastofna, þá væri nú verið að vinna að áætlunum um hvernig eldi á laxi í opnum sjókvíum hér við land yrði aflagt á næstu árum og í staðinn eingöngu byggt upp laxeldi sem byggði á ábyrgum eldisaðferðum. Þess í stað eru áform um aukið eldi á laxi í opnum sjókvíum þrátt fyrir að ráðamenn viti að slíkur vöxtur þess iðnaður eykur á hættuna sem slíkum rekstri fylgir gagnvart laxastofnum og fleiri þáttum lífríkisins. Því er bæði eðlilegt og nauðsynlegt að gera ríkar kröfur til stjórnvalda um að gengið sé frá tilheyrandi lagaumgjörð og ríkisforsjá þessa málaflokks með þeim hætti að lífríkinu sem gengið er á með þessum iðnaði sé sýnd sómasamleg virðing. Það gera Alþingismenn ekki með því að samþykkja lagafrumvarp þar sem haldið skal áfram að auka eldi á laxi í opnum sjókvíum hér við land án þess að til staðar sé nægilega ábyrg laga- og eftirlitsumgjörð, sem og tilsvarandi viðurlög þegar eldisaðilar fara út af sporinu í eldi sínu. Nú erum við einfaldlega komin á þann stað að stöðva verður frekari uppbyggingu þar til skilvirkt áhættumat liggur fyrir varðandi erfðablöndun en einnig áhættumat fyrir laxalús og sjúkdóma sem nú er ekki til staðar. Ásamt tilheyrandi viðbragðsáætlunum í varnarskyni með hliðsjón af þeim mismunandi sviðsmyndum náttúruvár sem reynsla annarra þjóða kennir okkur að muni koma til.

Sjókvíar í Arnarfirði.
Sjókvíar í Arnarfirði. Mynd: Golli

Frestun lagafrumvarpsins er eina leiðin

Berskjaldaðir laxastofnar líkt og smáir stofnar næst sjókvíaeldissvæðunum eru í bráðri hættu ef umrætt lagafrumvarp verður samþykkt. Enda eru þeir stofnar og aðrir smáir eða lítt nytjaðir laxastofnar ekki einu sinni teknir inn í áhættumat erfðablöndunar; líkt og tilvistarréttur þeirra sé enginn. Með frestun á afgreiðslu frumvarpsins gefst færi á því að koma í veg fyrir lögfestingu á stórgölluðu núgildandi áhættumati Hafrannsóknastofnunar, sem samið var af Ragnari Jóhannssyni sviðsstjóra fiskeldis- og fiskræktarsviðs Hafrannsóknastofnunar; Sigurði Guðjónssyni forstjóra Hafrannsóknastofnunar og meðhöfundum þeirra af fiskeldissviði Hafrannsóknastofnunar. Umrætt áhættumat erfðablöndunar hefur þann tilgang að meta líklega erfðablöndun frá hendi norskættaðra eldislaxa úr sjókvíum og ákvarðar ennfremur þröskuldsgildi hættumarka þeirrar erfðablöndunar. Með því að fresta afgreiðslu frumvarpsins gefst færi á að uppfæra áhættumatið. Þannig verður mögulegt að tryggja að áhættumat erfðablöndunar taki ekki einungis til laxastofna sem nytjaðir eru í tilteknum mæli, sem fellur að smekk höfunda áhættumatsins, heldur nái það til allra íslenskra laxastofna. Einnig gefst færi á því að koma í veg fyrir að áhættumat erfðablöndunar vanmeti áfram áhættuna af erfðablönduninni með því að uppfæra það með marktækari gögnum sem augljóst er að nýta skuli í því sambandi. Þar er um það að ræða annarsvegar að nota íslensk gögn yfir flakk laxa frá náttúrulegu klaki við vinnslu áhættumats erfðablöndunar, en það er margfalt minna (<1%) en það flakk laxa sem erlendu viðmiðin sem þröskuldsgildi hættumarka núgildandi áhættumats segja til um (4%). Hinsvegar er þar um að ræða þá augljósu kröfu að vinnsla áhættumatsins taki tillit til þeirrar staðreyndar að erfðablöndun runnin frá norskættuðum eldislöxum felur í sér meiri áhættu á því að stofngerð tiltekins laxastofns riðlist en ef erfðablöndunin er runninn frá náttúrulegum íslenskum flökkulöxum. Jafnframt gefur frestun á afgreiðslu frumvarpsins tækifæri á að koma í veg fyrir fyrirhugaða skipun samráðsnefndar, sem hefur einungis eitt tilgreint hlutverk; að fjalla um áhættumat erfðablöndunar án þess að nokkur skilyrði séu gerð um að viðkomandi nefndarmenn hafi faglegan bakgrunn sem tryggi að þeir hafi forsendur til að fjalla um slík mál til gagns. Af sama meiði þá veitir frestun á afgreiðslu frumvarpsins, tækifæri til að fella burtu ákvæði þess efnis að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti einhliða neitað uppfærslu áhættumats, hugnist honum uppfærslan ekki. Það að koma í veg fyrir slíka ráðstöfun er sérlega mikilvægt, ekki síst með hliðsjón af því hve óburðugt núgildandi áhættumat erfðablöndunar er - áhættumat sem tekur einungis til útvalinna laxastofna. Frestun á afgreiðslu frumvarpsins gefur færi á því að koma á fót fjölskipaðri nefnd óháðra sérfræðinga sem sinni sívirku faglegu eftirliti með uppfærslu áhættumats erfðablöndunar á meðan eldi í opnum sjókvíum er leyft, í stað þess að ráðherra skipi 3 aðila til að skoða þau mál sem skila eiga áliti sínu eftir 1 ár. Slíkt faglegt eftirlit myndi einnig í ljósi aðdragandans fela í sér að slík fagnefnd myndi á grunni úttekta fylgjast með því hvernig Hafrannsóknastofnun vinnur áhættumatið. Frestun á afgreiðslu lagafrumvarps þessa myndi einnig gefa færi á að tryggja sívirkt eftirlit með áhrifum laxalúsar og sjúkdómum hjá náttúrulegum stofnum laxfiska sem rekja má til sjókvíaeldis. Miðað við þau miklu og neikvæðu áhrif sem þessir áhrifaþættir hafa á náttúrulega stofna laxfiska einkum næst sjókvíaeldissvæðunum, þá er með ólíkindum að laxlúsarvandinn sé í frumvarpinu afgreiddur með vísun í reglugerð sem ráðherra skuli einhvern tíma setja er byggja skuli sem fyrr á eftirliti rekstraraðila með eigin eldislaxi - en eftirlit með áhrifunum á náttúrulega stofna laxfiska sé áfram ekkert.

Hér verða talin upp 3 grundvallaratriði (1-3) sem umrætt lagafrumvarp tekur ekki ábyrgt tillit til, enda þótt þau gangi gegn heilbrigði og tilvist íslenskra laxastofna sem og göngusilungsstofna á sjóvkvíaeldissvæðunum. Framsetning lagafrumvarpsins frá hendi ráðuneyti Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og síðan atvinnuveganefndar Alþingis vitnar um þá staðreynd. Enda þótt greinarhöfundur hafi sent ítarlega rökstuddar ábendingar um alvarleika þessara brotalama frumvarpsins til ráðuneytisins þegar drög þess lágu fyrir og síðan enn frekari gögn ítrekað til atvinnuveganefndar Alþingis. Breytingartillögur atvinnuveganefndar Alþingis staðfesta að í stað þess að ganga í það að tryggja að lagafrumvarpið innihaldi skilvirk úrræði til varnar þeim náttúrulegum stofnum laxfiska sem við sögu koma, þá er vísað til þess að þau nauðsynlegu úrlausnarefna verði afgreidd síðar af aðilum sem ráðherra skipar. Án þess þó að settir séu fyrirvarar um nauðsyn þess að umfang eldis á laxi í opnum sjókvíum verði ekki aukið á meðan þau mál eru óafgreidd.

Eldislaxar úr sjókvíum í Arnarfirði veiddir í Fífustaðadalsá (efst og neðst) ásamt náttúrulegum laxi af stofni árinnar.
Golli

1 - Gildandi áhættumat er fölsk vörn

Núgildandi áhættumat erfðablöndunar sem frumvarpið skal lögfesta er fölsk vörn því það gagnast ekki minnstu og berskjölduðustu laxastofnunum og vanmetur stórlega áhættuna af erfðablöndun á landsvísu. Eldislaxar sleppa úr sjókvíum í réttu hlutfalli við það magn sem alið er hverju sinni og hluti þeirra laxa gengur í ár og taka þátt í hrygningunni með íslenskum löxum. Áhættumat erfðablöndunar er ætlað að kortleggja þá áhættu gagnvart íslenskum laxastofnum svo hægt sé að ákvarða eldismagn með hliðsjón af því að erfðablöndunin fari ekki upp fyrir tiltekin hættumörk. Árið 2017 birti Hafrannsóknastofnun slíkt áhættumat sem enn gildir. Það áhættumat skal nú lögfesta óbreytt í öllum aðalatriðum enda þótt það feli í sér stórkostlegt vanmat á áhættunni sem íslenskum laxastofnum stafar af erfðblöndun við norskættaða eldislaxa, líkt og undirritaður og fleiri hafa ítrekað bent formlega á. Ótrúlegt er að horfa upp á þá staðreynd að gildandi áhættumat erfðablöndunar sem undanskilur meira en helming af laxastofnum landsins, þ.m.t. berskjaldaða laxastofna sem eru runnir úr ám næst sjókvíaeldissvæðunum, skuli enn vera til umfjöllunar eins og það meti í reynd á jafnræðisgrunni áhættuna af erfðablöndun eldislaxa úr sjókvíum fyrir alla villta laxastofna landsins. Spurningunni um það hvað fékk líffræðimenntaða sérfræðinga til að mismuna með þessum hætti laxastofnum landsins hefur enn ekki verið svarað. Verra er að ekki stendur til að hvika frá þeirri mismunun áhættumatsins líkt og endurspeglaðist í umsögn Hafrannsóknastofnunar frá 10. apríl síðastliðnum til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Í þeirri umsögn var fjallað um atriði sem grundvölluð voru á áhættumati erfðablöndunar með hliðsjón af tilteknum ám - og framsetningin þar sýndi meðal annars að hinn smái laxastofn sem Fífustaðadalsá í Arnarfirði fóstrar þótti þess ekki verður að vera tekinn til umfjöllunar. Það að umsögnin var án nokkurra fyrirvara var sérlega eftirtektarverð, enda gallar áhættumats öllum kunnir og því eðlilegt að geta þeirra ef vilji var til þess af hálfu Hafrannsóknastofnunar. Með hliðsjón af þessu er ljóst að af hálfu Hafrannsóknastofnunar þá er ekki litið til þess að taka alla laxastofna landsins inn í áhættumatið. Þar á meðal þá smæstu og berskjölduðustu sem eru næst sjókvíaeldissvæðunum, líkt og Fífustaðadalsá er dæmi um. Ekki frekar en að vilji er til þess hjá Hafrannsóknastofnun að uppfæra áhættumatið m.t.t. annarra upplýsinga sem varða grunnvirkni þess mats með hliðsjón af brýnni nauðsyn þess að nota íslensk gögn yfir flakk laxa frá náttúrulegu klaki og að taka tillits til norsks uppruna eldislaxanna í áhættumatinu. Til samans þá veldur þetta því að áhætta erfðablöndunar er stórlega vanmetin á landsvísu.

Bíldudalur.
Golli

2 - Banvæn laxalús berst úr eldi

Laxalús sem runnin er frá sjókvíaeldi hefur gríðarlega neikvæð áhrif á heilbrigði og lífslíkur laxa og göngusilunga úr ám næst sjókvíaeldissvæðunum. Umrætt lagafrumvarp tekur ekkert tillit til þeirrar staðreyndar að lífslíkur laxa og göngusilunga af stofnum úr ám í nágrenni sjókvíaeldissvæða eru stórlega skertar vegna laxalúsar sem runnin er frá eldislaxi úr sjókvíunum. Um það vitnar fyrirhuguð innleiðing lagaumgjarðar sjókvíaeldis á laxi þar sem engin krafa er um að fyrir hendi sé sívirkt áhættumat á áhrifum laxalúsar á laxa- og göngusilungsstofna í nágrenni sjókvíaeldissvæðanna hér við land og tilheyrandi viðbragðsáætlanir í varnaskyni með hliðsjón af aðstæðum sem ógna munu náttúrulegum stofnum þeirra laxfiska.

3 - Fisksjúkdómar berast úr eldi

Reynsla annarra þjóða kennir okkur að fisksjúkdómar munu smitast í raðir íslenska laxastofna fyrir tilstilli sjókvíaeldis. Núverandi lagafrumvarp innleiðir lagalega umgjörð sjókvíaeldis á laxi, án þess að þar sé gerð krafa um það að fyrir hendi sé virkt áhættumat á dreifingu fisksjúkdóma fyrir tilstuðlan sjókvíaeldis yfir í náttúrulega stofna laxfiska og tilheyrandi viðbragðsáætlanir í varnarskyni.

Víti til varnaðar

Síðustu fjögur ár (2015-2018) hefur greinarhöfundur vaktað áhrif sjókvíaeldis á laxa- og sjóbirtingsstofna í í Fífustaðadalsá, Bakkadalsá og Selárdalsá í Ketildölum í Arnarfirði. Niðurstöður þeirra rannsókna sýna með skýrum hætti hve óréttlátt og óvægið umrætt lagafrumvarp er gagnvart fiskistofnum þeirra áa við Arnarfjörð, og annarra áa sem svipað er ástatt um. Gögn frá rannsóknum mínum sýna að innstreymi eldislaxa í Fífustaðadalsá er þegar fyrir ofan hættumörk með hliðsjón af erfðablöndun. Jafnframt sýna gögnin slæmt ástand sjóbirtinga í umræddum ám í Ketildölum, vegna áþjánar frá hendi laxalúsar og fækkunar í þeirra röðum eftir að umfang laxeldisins jókst (2017-2018), sem endurspeglar óviðunandi laxalúsarfaraldur í Arnarfirði vegna sjókvíaeldisins þar. En sú laxalús heggur einnig skörð í raðir þeirra smáu laxastofna sem þarna eiga hlut að máli. Þau gögn mín sendi ég atvinnuveganefnd Alþingis sem hluta af viðbótarumsögn minni um frumvarpið. Þær staðreyndir sýna á skýran hátt það misrétti sem felst í því ef alþingismenn ákveða að samþykkja frekari vöxt sjókvíaeldis af þessu tagi, án þess að sýna sómasamlega viðleitni til þess að reyna að tryggja hag slíkra laxa- og göngusilungsstofna.

Skaðabótaskylda ríkisins

Eldi í opnum sjókvíum er leyft af hálfu stjórnvalda, enda þótt ljóst sé að því fylgir að veð eru tekin í heilbrigði og tilvistargrundvelli laxastofna og fleiri þátta lífríkis Íslands. Af því leiðir að ábyrgð stjórnvalda er mikil varðandi það að lagaumgjörðin feli ekki í sér brotalamir sem fría eldisaðilana frá þeirri ábyrgð sem þeir eiga að fullu að bera varðandi tilfallandi tjón sem þeir valda á íslensku lífríki, hvort sem það er tímabundið eða óafturkræft. Á meðal slíkra galla sem algerlega ótækt er að séu lögfestir, er núgildandi stórgallað áhættumat erfðablöndunar sem mismunar laxastofnum landsins. Ef af því verður þá jafngildir það einfaldlega yfirlýsingu þess efnis að fyrst Hafrannsóknastofnun sem er forsjáraðili stjórnvalda í þessum efnum sjái ekki tilefni til að taka ákveðna laxastofna inn í áhættumat erfðablöndunar, þá verði ekki hægt að gera þá kröfu á hendur eldisaðilum að þeir séu ábyrgir komi til þess að þeir laxastofnar verði fyrir tjóni vegna eldis á laxi í sjókvíum. Með sambærilegum rökum má segja að höfundar lagafrumvarpsins, og að endingu þeir þingmenn sem samþykkja myndu það í núverandi mynd, væru að einnig útvista ábyrgð eldisfyrirtækja til ríkisins vegna tjóns sem hlýst á fiskistofnum vegna laxalúsar og sjúkdóma sem runnir eru frá sjókvíaeldi. Þetta er sagt í ljósi þess að stjórnvöldum hefur verið kynnt sú mikilvirka hætta næst sjókvíaeldissvæðum sem stafar af því að starfrækja ekki skilvirkt og sívirkt áhættumat og tilheyrandi skaðaminnkandi viðbragðsáætlanir vegna þeirrar ógnar sem náttúrulegum laxa- og göngusilungsstofnum stafar af laxalús og sjúkdómum sem runnir eru frá sjókvíaeldi hér við land.

Jóhannes Sturlaugsson líffræðingur mælir eldislax úr Fífustaðadalsá.
Golli

Hagsmunaárekstrar Hafrannsóknastofnunar

Alltumlykjandi starfsemi Hafrannsóknastofnunar fyrirgerir hlutleysi hennar og spillir því úrlausn álitamála er varða sjókvíaeldi. Lagafrumvarpið sem nú er í meðförum Alþingis gerir ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun sé áfram altumlykjandi hvað varðar sjókvíaeldi og áhrif þess á náttúrulega fiskistofna, allt frá mati á leyfilegu eldismagni, til rannsókna, umsagna og eftirlits. Það eitt og sér að sami aðilinn sjái fyrir hönd stjórnvalda um alla þessa þætti er varða bæði eldislax sjókvíanna og náttúrulega laxstofna sem það eldi hefur áhrif á, felur í sér ólíðandi hagsmunaárekstra. Sú aðferðafræði felur ekki einungis í sér að hlutleysi Hafrannsóknastofnunar er fyrir borð borið, heldur býður einnig upp á að álitamál fáist ekki leyst vegna brigða sem hægt er að bera á hlutleysi stofnunarinnar. Nokkuð sem mun líklega leiða til þess að ríkið skapi sér af þeim sökum skaðabótaskyldu algerlega að óþörfu.

Hér er við hæfi að líta á hluta þeirra hlutverka Hafrannsóknastofnunar sem um ræðir.

Hafrannsóknastofnun ákvarðar í hvaða mæli má ala lax í sjókvíaeldi.

Hafrannsóknastofnun gegnir lykilhlutverki í rannsóknum er varða sjókvíaeldi á laxi.

Hafrannsóknastofnun gefur „hlutlausar“ umsagnir þar sem eigin verk koma við sögu.

Hafrannsóknastofnun sinnir eftirliti á erfðablöndun á „hlutlausan“ hátt - m.a. á
norskættuðum eldislaxi sem sleppa mun úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi þeirra.

Sá framgangsmáti að Hafrannsóknastofnun gefi umsagnir og sinni eftirliti sem varða þeirra eigin störf er með miklum ólíkindum. Því þar eru sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar fengnir til að gefa óvilhallt mat um eigin störf eða samstarfsmanna sinna, mat sem aldrei getur orðið annað en hlutdrægt. Því Hafrannsóknastofnun hefur sjálf útbúið aðferðafræðina sem afmarkar starfsemi fiskeldis í sjókvíum sem við sögu kemur með einum eða öðrum hætti í ágreiningsmálum sem þarfnast umsagna um möguleg áhrif eldisins á náttúrulega laxastofna og aðra þætti lífríkisins. Auk þess sem þær rannsóknir eða sá skortur á rannsóknum sem við sögu kemur er einnig á þeirra snærum.

Hlutleysi er forsenda farsældar

Tryggja þarf hlutleysi í starfsumhverfi sjókvíaeldis á laxi. Hérlendis hefur fólk vanist ýmsu vegna smæðar samfélagsins varðandi það að opinberir aðilar gegni mismunandi hlutverkum í senn þar sem hagsmunir fara ekki saman. Sá vettvangur sem hér um ræðir felur í sér gríðarlega hagsmuni, sem eru í húfi og þá öðru fremur fyrir íslenska laxastofna og göngusilungsstofna. Jafnframt leiðir núverandi tilhögun til þess að sláandi hagsmunaárekstra er að finna á milli mismunandi hlutverka sem Hafrannsóknastofnun gegnir og nefnd hafa verið. Ástandið mun versna til muna ef svo fer sem horfir að frumvarpið bæti frekari meinvörpum í starfsumhverfi sjókvíaeldis í stað þess að greiða úr þeim ólestri sem þar er ríkjandi með tilheyrandi áhættu fyrir íslenska laxa- og göngusilungsstofna. Þegar stórvægilegir mismunandi hagsmunir takast á þá gegna fjárhagslegir hagsmunir oft veigamiklu hlutverki varðandi það hver útkoman verður. Í tilfelli Hafrannsóknastofnunar sem heildar, þá er ljóst til dæmis að fiskeldis- og fiskræktarsvið stofnunarinnar hefur aðra hagsmuni að verja fjárhagslega og faglega en ferskvatnslífríkissvið Hafrannsóknastofnunar. Varðandi fjárhagslega hagsmuni þá má geta þess að nú þegar eru styrkir sem Hafrannsóknastofnun þiggur umtalsverðir vegna matsgerða á burðarþoli fjarða vegna sjókvíaeldis og vegna rannsókna er tengjast með beinum hætti sjókvíaeldi á laxi og áhrifum þess á náttúrulega fiskistofna - þeir styrkir eru ört vaxandi hluti af fjármögnun Hafrannsóknastofnunar. Þannig hefur Hafrannsóknastofnun (Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun sem sameinaðist Hafrannsóknastofnun 2016) þegið um 300 milljónir króna af þeim 400 milljónum króna sem Umhverfissjóður sjókvíaeldis hefur veitt á fjögurra ára starfstíma sínum (2015-2018), auk styrkja sem þegnir hafa verið frá Fiskræktarsjóði og mögulega fleiri aðilum til samskonar rannsókna. Mikið og vaxandi vægi fiskeldisins í störfum Hafrannsóknastofnunar sýnir eitt og sér að miðað við núverandi aðstæður þá er eðlilegt að hlutleysi Hafrannsóknastofnunar sé dregið í efa enda skarast hagsmunir, þar sem rekstrarstrarfjármunir stofnunarinnar og mismunandi faglegir hagsmunir koma við sögu.

Hlustum á raddir skynseminnar

Náttúruvernd í eigin landi endurspeglar umhverfisvitund þjóðarinnar. Undanfarið hefur mikið verið rætt um vilja Íslendinga til að láta gott af sér leiða í loftslagsmálum og öðrum slíkum framfaramálum sem bætt geta umhverfi og lífsskilyrði hér á jörð. Umhverfimálin sem tengjast sjókvíaeldi hafa afskaplega mikið vægi bæði þegar litið er til áhrifannna innanlands og á alþjóðavísu. Ástæðan er einfaldlega sú að starfsemin setur lífríki landsins í hættu og slíkri ráðstöfun fylgir mikil ábyrgð sem þarf að sinna vegna þeirrar náttúru sem okkur ber skylda til að vernda. Ef við sinnum ekki þeim skyldum líkt og umrætt frumvarp ber með sér, þá gjalda í senn íslensk náttúra og orðspor okkar á vettvangi umhverfismála.

Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna frá IPBES nefndinni sem byggð er á gríðarmikilli samantekt vísindagagna, sýnir áður óþekkt ófremdarástand hvað varðar hnignun lífríkisins á veraldarvísu. Skýrslan fól í sér ákall til þjóða heims um úrbætur. Segja má að sú skýrsla sé mikilvægasti minnismiðinn um langa hríð sem Íslendingum hefur borist varðandi mikilvægi þess að við sinnum náttúruverndarskyldum okkar, og því ljóst að íslenskum stjórnvöldum ber rík skylda til að taka ráðandi hlutverk sitt í náttúruvernd hérlendis grafalvarlega. Efst þar á blaði er að sporna við þeim alvarlega heimatilbúna vanda sem stjórnvöld gangsettu með sjókvíaeldi á laxi. Hér er einnig við hæfi að geta ákalls David Attenborough fyrr á þessu ári til varnar náttúrulegum laxi á veraldarvísu; ákalls sem vitnaði um stóran þátt sjókvíaeldis í hnignun laxastofna. Röksemdir vísindamanna Sameinuðu þjóðanna og David Attenborough í þessum efnum dregur enginn í efa. Þær röksemdir sýna að það eina rétta sem alþingismenn Íslendinga geta gert í málum hins stórgallaða frumvarps, er að fresta afgreiðslu þess til næsta þings.

Höfundur er líffræðingur hjá rannsóknafyrirtækinu Laxfiskum. Í greininni er vitnað til ítarlegra upplýsinga sem greinarhöfundur hefur sett fram og birt í eftirtöldum erindum til stjórnvalda.

Umsögn Jóhannesar Sturlaugssonar um frumvarp varðandi ýmsar breytingar á lögum er varða fiskeldi. 29 mars 2019. Sjá vef Alþingis:

https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-4946.pdf

Viðbótarumsögn Jóhannesar Sturlaugssonar um frumvarp varðandi ýmsar breytingar á lögum er varða fiskeldi. 6. maí 2019. Sjá vef Alþingis:

https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5418.pdf


Umsögn Jóhannesar Sturlaugssonar um drög að frumvarpi varðandi ýmsar breytingar á lögum er varða fiskeldi. 13. Janúar 2019. Sjá samráðsgátt stjórnarráðsins: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1256&uid=b3fb62b5-6a17-e911-944c-005056850474