Loftslagsbreytingar og áhrifin vegna þeirra hafa breytt heimsmyndinni sem við eigum að venjast. Það er nauðsynlegt að við sem einstaklingar, samfélög og þjóðir breytum forgangsröðun okkar vegna þessa.

Ein alvarlegasta orkukrísa í áratugi dynur nú á nágrannaþjóðir allt í kringum okkur. Í Evrópu hefur staða orkumála versnað mjög eftir að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Unnið er að neyðarráðstöfunum í orkumálum vegna afleiðinga stríðsins sem felur í sér orkuskort og hækkandi orkuverð. Við sjáum nú með enn gleggri hætti mikilvægi þess að vera ekki bara óháð jarðefnaeldsneyti, heldur óháð öðrum um orku og eldsneyti. Krísan varpar skýru ljósi á nauðsyn endurnýjanlegra orkugjafa og hve mikið þjóðaröryggismál orkusjálfstæði og orku­öryggi raunverulega er.

Við Íslendingar erum þó ekki þátttakendur í þessari orkukrísu sem nágrannar okkar standa frammi fyrir. Við getum þakkað okkar innlendu orkugjöfum, raforkunni og jarðvarmanum og þeim kerfum sem veita orkunni til heimila og fyrirtækja í landinu fyrir þá staðreynd.

Heillaspor fyrir þjóðina

Eitt af mínum fyrstu embættisverkum var að setja af stað vinnu til að gera gangskör að tryggu orkuframboði fyrir almenna hluta raforkumarkaðarins. Nú er unnið að tillögum nefndar um orkuöryggi þar sem aukin áhersla verður lögð á fyrirsjáanleika á markaði fyrir heimilin í landinu sem og fyrir smærri fyrirtæki.

Í síðustu viku var Hólasandslína 3 vígð og tekin í gagnið á Akureyri. Línan er hluti af áformum um að uppfæra byggðalínuna sem nú er orðin 50 ára gömul. Það er ljóst að orkuöryggi verður ekki tryggt á grunni 50 ára gamalla innviða. Hólasandslína 3 er því mikilvæg bót fyrir flutningskerfi raforku á Íslandi. Heillaspor fyrir alla þjóðina þar sem hún eykur flutningsgetu, tryggir stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi og umfram allt, eykur orkuöryggi fólks á landinu.