Orka á ýmsu formi er ein mikilvægasta nauðsynjavara fyrir athafnir okkar mannanna. Græn orka finnst meðal annars í formi fallorku (vatnsföll), varmaorku, vindorku og sólarorku. Orkan er virkjuð með því að umbreyta henni í rafmagn til að nýta við fjölbreyttar aðstæður.

Fyrirtæki og heimili í landinu þurfa lífsnauðsynlega á að halda tryggu rafmagni frá dreifiveitu. Raforka frá dreifiveitum er til afnota um leið og hún er afhent. Til að geyma raforku þarf rafgeyma eins og allir þekkja. En það sem kannski ekki allir átta sig á er að uppistöðulón í raforkukerfinu virka svipað og stórir rafgeymar. Mikill hluti raforkuframleiðslu hér á landi kemur frá vatnsaflsvirkjunum. Ef vatnsbirgðir eru of litlar eykst kostnaður við framleiðsluna og getur þurft að grípa til skömmtunar eða stöðvunar í versta falli. Hingað til hafa rafstöðvar, ekki knúnar grænni orku heldur kolefnaeldsneyti, gegnt því hlutverki að styrkja orkukerfið. Auk þess að vera grænt þarf raforkukerfið að vera sveigjanlegt, stöðugt tiltækt og uppfylla öryggiskröfur.

Mikilvægi afhendingaröryggis mun vaxa á komandi árum. Að afloknum orkuskiptum er stefnt að því að nær öll farartæki verði knúin innlendri orku. Af því leiðir að öruggar samgöngur verða nær alfarið háðar tryggu rafmagni. Mikil áhersla á nýsköpun í þjónustu og tækni í atvinnulífinu mun ekki síður gera auknar kröfur til fyrirsjáanleika í framboði á grænni orku.

Íslenska raforkukerfið er lokað og getur ekki tengst öðrum kerfum ef áföll eða truflanir skapast innan lands. Ef orkuframleiðsla stöðvast lengur eða skemur á einum stað þarf varaafl og umframorku annars staðar innan kerfisins. Með innra flutningsneti er mögulegt að nýta umframgetuna til að fyrirbyggja orkuskort. Gera má ráð fyrir að kostnaður aukist og samkeppnishæfni fari versnandi í okkar lokaða landskerfi næstu árin. Tenging við orkukerfi annarra landa hefur oft komið til umræðu en eina leiðin til þess er í gegnum sæstreng. Að margra mati er skynsamlegt og nauðsynlegt að hefja undirbúning að lagningu sæstrengs til orkuflutninga milli Íslands og Evrópu.

Á sama hátt og á Íslandi verða truflanir og áföll í rekstri raforkukerfa í öðrum löndum. Með tengingum milli landa og ólíkra svæða hefur tekist að auka rekstraröryggi raforkukerfa. Sveiflur í rekstrinum vegna bilana eða sveiflukennds framboðs koma fram í raforkuverði á mörkuðum. Erlendis hefur nýting vindorku og sólarorku aukist mikið undanfarin ár. Þegar vindur blæs og sólin skín eykst framboð af grænni orku og verðið lækkar. Þegar sólar nýtur ekki við eða ekki hreyfir vind snýst dæmið við og verðið hækkar.

Hagkvæmt samspil nýtingar vatnsbirgða í uppistöðulóni og vindorku skýrist af því að hægt er að spara vatnið þegar vindurinn blæs en nýta það í logninu. Við getum ekki stýrt því hvenær sólin skín eða vindur blæs en við getum stýrt því hvenær við nýtum vatnsbirgðir. Þetta nýta Norðmenn sér eftir að hafa tengst erlendum raforkukerfum í gegnum sæstrengi annars vegar við Bretland og hins vegar við Þýskaland.

Ávinningur Norðmanna er:

1. Meiri áreiðanleiki með beinum aðgangi að erlendum mörkuðum ef vart verður rekstrar­truflana eða orkuskorts innanlands.

2. Aukinn hagnaður með því að kaupa rafmagn á lágu verði frá vindorku og sólarorku og selja rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum þegar verðið er hátt.

3. Aukið umfang grænnar orku í heildina tekið með því að flytja inn rafmagn frá vind- og sólarorku sem annars kæmi ekki að notum.

Íslenski orkumarkaðurinn er ekki ólíkur þeim norska og tenging við erlenda orkumarkaði mun hafa svipuð áhrif hér á landi og í Noregi. Við þetta má bæta að tengingin mun minnka áhættu vegna fjárfestinga í nýjum virkjunum sem þá verður hægt að fresta án hættu á orkuskorti í landinu eða flýta ef hagkvæmt þykir.