Þegar maður fer að landamærum Suður og Norður-Kóreu og horfir yfir til norðursins er eitt sem vekur stigvaxandi athygli manns. Norðan meginn eru engin tré. Maður horfir þarna yfir fljótið sem aðskilur löndin. Hinum meginn hafa öll tré verið hoggin. Hlíðarnar eru ekki skógi vaxnar eins og í Suður-Kóreu, heldur blasir berangrið við. Í einni hlíðinni getur maður með góðum sjónauka séð risavaxið líkneski af Kim Il-sung, sem gnæfir yfir skógleysinu. Enda upphafsmaður þeirrar pólitíkur sem leitt hefur til þessara og fleiri hörmunga.

Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa um nokkurt skeið litið svo á að landið hafi ekki þörf á umheiminum. Norður-Kórea sé sjálfbær um lífsins gæði. Þar á meðal hefur verið litið svo á að ekki þurfi þjóðin að leita annað til að fá efnivið til húshitunar heldur en í eigið skóglendi. Og nú eru trén sem sagt að verða búin.

Við Íslendingar höfum fyrir löngu hoggið okkar skóglendi í svipuðu skyni og Norður-Kóreumenn. Það gerðum við á landnámsöld og uppúr. Margur hefur syrgt þær skógi vöxnu hlíðar sem greint er frá að hér hafi verið við landnám. Lærdómurinn sem draga má af þessum tveimur dæmum um óhóflegt skógarhögg er nokkuð augljós: Svona getur einangrun þjóða, pólitísk eða landfræðileg, farið illa með landsins gæði og fegurð náttúrunnar. Einangrunarhyggja er ekki umhverfisvæn.

Viss líkindi

Íslendingar mega að sjálfsögðu vera æði stoltir af því að hafa náð þeim árangri að kynda nokkurn veginn allan innlendan húsakost með heitu vatni og jafnframt er það til mikillar eftirbreytni að rafmagnið er að langmestu leyti fengið frá endurnýtanlegum og umhverfisvænum orkuuppsprettum. Þarna er Ísland til fyrirmyndar. Hins vegar verður það líka að segjast eins og er að einangrunarstefna Íslendinga í orkumálum og gorgeir um óendanlegt magn af hreinni orku, sem ómað hefur í almennri umræðu hér á landi um langt skeið, gerir Ísland dálítið að Norður-Kóreu. Auðvitað er stjórnarfarið ekki að neinu öðru leyti svipað, en þessi líkindi eru umhugsunarverð. Sérstaklega verð ég að viðurkenna að Norður-Kórea kom upp í hugann þegar umræðan fór á flug í liðinni viku um að orkan á Íslandi væri að verða búin. Eins og trén.

Það var og. Hún er þá ekki meiri en þetta, þessi mikla orka okkar. Þetta er eiginlega svolítið fyndið. Menn tala sig bláa í framan gegn hugmyndum um að leggja sæstreng til landsins, vegna þess að ekki undir nokkrum kringumstæðum megi hin fagra orka okkar verða seld öðrum þjóðum, en nú er semsagt að koma í ljós að sæstrengur myndi líklega þjóna þveröfugum tilgangi: Hann myndi einkum gagnast til að flytja evrópska orku hingað.

Náttúran okkar

Engan sérfræðing í orkumálum hef ég þó heyrt nefna þessa hlið á sæstrengsmálinu opinberlega. Grunsemdir vakna því. Hafa menn kannski hugsað sér að taka norður-kóresku leiðina alla leið í orkumálum? Hún myndi þá felast í því að í stað þess að samnýta orkuuppsprettur með öðrum þjóðum muni Íslendingar halda áfram að þverskallast og gjörnýta einir sínar orkuauðlindir. Það myndi þýða allsherjareyðileggingu á íslenskri náttúru, með virkjun hverrar sprænu og hveralinda. Vindmyllur myndu blasa við á hverjum hól.

Mér finnst eins og sumir séu að gíra sig í þessa átt í umræðunni. Virkjunarfólk blæs í lúðra, heyrist mér. Önnur líkindi greini ég með lokaða einræðisríkinu á Kóreuskaga hvað þetta varðar. Það er einsog enginn, eða að minnsta kosti mjög fáir, sem fjalla um orkumál fáist til að viðurkenna að mögulega hafi Íslendingar sóað orku sinni. Það er gott að hafa aðgang að hreinni, umhverfisvænni orku eins og Íslendingar, en hvernig hefur henni verið varið? Jú, hún hefur verið afhent stórfyrirtækjum á spottprís. Mengandi stóriðju. Stefnan hefur verið sú að virkja mikið og selja orkuna ódýrt. Þetta hefur ríkið ákveðið. Það er eins og engum detti í hug að annað viðskiptaplan gæti verið skynsamlegra, sérstaklega þegar orkan er jú svona takmörkuð: Að virkja lítið en selja dýrt. Kannski myndi þá stóriðja sem stólar á gjafvirði orkunnar rýma til fyrir verðmætari kaupendum? Ef þannig yrði staðið að málum yrði í öllu falli ólíklegra að orkan okkar leiði til eyðileggingar á náttúrunni okkar.