Umræða um mismunandi orkukosti hefur aukist undanfarna mánuði og þekking almennings er meiri. Einnig styttist í að starfshópur um vindorku skili niðurstöðum sínum. Í umræðu um mismunandi orkukosti er mikilvægt að við áttum okkur á stærðunum sem um ræðir.

Það var gífurlega mikilvægt skref að rjúfa kyrrstöðuna sem hafði varað í tæpan áratug þegar við samþykktum þriðja áfanga rammaáætlunar í fyrra. Í þriðja áfanganum voru 214 MW sett í nýtingarflokk í vatnsafli, 220 MW í vindorku og 865 MW í jarðvarma. Áform um framkvæmdir í jarðvarma fara þó fyrst og fremst í að anna aukinni eftirspurn eftir heitu vatni til húshitunar og þar eru mjög stór verkefni fram undan.

Stærsta vatnsaflsvirkjun landsins er Fljótsdalsstöð, oftast nefnd Kárahnjúkavirkjun. Uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 MW. Það má öllum vera ljóst að það eru engin teikn á lofti um slíkar framkvæmdir á næstu áratugum.

Hvað er í kortunum

Einu framkvæmdirnar sem lagt verður í og munu mögulega komast í notkun fyrir árið 2030 er nýting vatnsafls í Hvammsvirkjun og nýting vindorku í Búrfellslundi. Uppsett afl Hvammsvirkjunar er 95 MW og Búrfellslundar 120 MW.

Grænbókin um stöðuna í orkumálum gerir ráð fyrir að við þurfum 650 MW fyrir 2030 og 3.000 MW til þess að ná fullum orkuskiptum. Þá erum við að tala um uppsett afl sem er hámarksafl en nýtingin er mismunandi eftir orkukostum. Langtum meiri í vatnsafli og jarðvarma en vindorku.

Hafa skal í huga að ákveðið hefur verið að stækka virkjanir um 190 MW og vonir standa til að bætt orkunýting skili 120 MW en það breytir ekki því að það þarf meiri græna orku.

Það liggur í augum uppi að erfitt verður að ná samfélagslegri sátt um að virkja 30 vatnsaflsvirkjanir á stærð við Hvammsvirkjun á næstu árum. Það er ljóst að við munum þurfa að framleiða meiri græna orku og fara betur með orkuna okkar til þess að ná settum markmiðum um 55% samdrátt í losun á beina ábyrgð Íslands og kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.