Íslendingar eru lánsöm þjóð er kemur að náttúruauðlindum. Með nýtingu þeirra höfum við byggt upp samfélag í aldanna rás sem vex og dafnar. Ein af þeim auðlindum sem gerir þjóðina öfundsverða er endurnýjanleg umhverfisvæn orka. Landsvirkjun er treyst fyrir því bæði að beisla hana í dag og þróa fyrir komandi kynslóðir. Orkufyrirtækið er í eigu íslensku þjóðarinnar og ábati af rekstri félagsins því samofinn samfélaginu. Saga hagvaxtar og þróunar er nátengd uppbyggingu virkjana til að mæta nýjum iðnaði í landinu, þar með ýta undir atvinnustig og styðja við orkuþörf heimila. Eftir uppbyggingartíma er komið að uppskeru og tími kominn til að huga að nýjum græðlingum til framtíðar.

Landsvirkjun hefur aldrei í tæpri 60 ára sögu sinni staðið betur fjárhagslega. Er það vitnisburður um þann trausta grunn sem félagið byggir á með 18 vatnsafls- og jarðgufustöðvum og tveimur vindmyllum. Aldrei hefur verið slakað á viðhaldi og endurbótum, jafnvel eftir stóráföll í efnahagslífinu, enda er þá tjaldað til einnar nætur. Elsta aflstöðin í eigu Landsvirkjunar er Ljósafossstöð frá árinu 1937 og er hún ásamt þeim sem á eftir komu skýr vitnisburður um þá ábyrgð sem starfsfólk Landsvirkjunar hafa alla tíð sýnt því trausti sem þjóðin ber til félagsins að ganga vel um auðlindina.

Hærra verð til stórnotenda

En þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Þegar samningar við stórnotendur voru fyrst undirritaðir var ávallt stefnt að því fyrir hönd Landsvirkjunar að sækja jafnari skiptingu þegar kom að endursamningum. Samningarnir við stórnotendur eru einhverjir stærstu viðskiptasamningar sem gerðir eru á Íslandi og því er tekist á þegar viðræður standa yfir, stundum þannig að það gustar um. En þegar lausn næst, eins og í öllum góðum viðskiptasamböndum, þá takast aðilar í hendur og horfa fram á veginn. Einmitt þar er að finna eina helstu ástæðu bættrar afkomu Landsvirkjunar í dag, hærra verð frá stórnotendum en áður hefur fengist. Verðið þar er nú að flestu leyti komið til jafns við þau lönd sem við miðum okkur við.

Landsvirkjun selur ekki raforku beint til heimila eða smærri fyrirtækja, heldur selur inn á svokallaðan heildsölumarkað þar sem raforkusölufyrirtæki geta keypt og selt áfram. Verð frá Landsvirkjun hefur síðustu ár nær staðið í stað að raunvirði. Íslensk heimili og smærri fyrirtæki hafa ekki þurft að glíma við snarhækkandi raforkureikninga eins og víða í Evrópu.

Hálfur spítali í handbæru fé

Skýr rekstrarmarkmið og aðhald í rekstri gera það síðan að verkum að hagnaður Landsvirkjunar hefur farið hækkandi. Eftir fyrstu 9 mánuði þessa árs er hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hærri en hann hefur verið frá upphafsdegi jafnvel þótt viðmiðið sé á ársgrundvelli (Sjá súlurit).

Af því leiðir einnig að sjóðstreymi Landsvirkjunar er með miklum ágætum. Í 9 mánaða uppgjöri félagsins er handbært fé frá rekstri, þegar búið er að greiða alla reikninga og laun, 51 milljarður króna. Þekki ég ekki til annars rekstrarfélags á Íslandi sem hefur skilað viðlíka upphæð jafnvel þótt yfir heilt ár væri litið. Til samanburðar nemur þessi upphæð, sem skilað hefur sér inn á bankabók Landsvirkjunar á aðeins fyrstu 9 mánuðum þessa árs, rúmlega helmingi þess sem áætlað er að nýr Landspítali kosti.

Til að mæta kostnaði við uppbyggingu virkjana hefur Landsvirkjun sótt sér lánsfé og um tíma verið skuldsett félag á ýmsa fjárhagsmælikvarða. Staðan í dag er aftur á móti sú að Landsvirkjun hefur aldrei í sögu félagsins verið eins lítið skuldsett og er í raun komin í þá stöðu að lækkun skulda er ekki lengur forgangsmál eins og verið hefur síðustu ár. Það eru merkileg tímamót því að sama skapi hefur eign íslensku þjóðarinnar í félaginu aldrei verið verðmeiri (Sjá línurit).

Forgangsröðum grænu orkunni

Það eru forréttindi fyrir Íslendinga að geta byggt upp áframhaldandi hagvöxt og tækifæri fyrir framtíðina með endurnýjanlegri orku. En nú er svo komið að orkukerfi Landsvirkjunar er fulllestað bæði er viðkemur orku og afli. Unnið er að öflun leyfa til þess að byggja enn frekar undir vatnsafl og jarðgufuvirkjanir, en einnig að stíga traustum sporum í átt að nýtingu vindorku. Raunin er samt sú að eftirspurn eftir endurnýjanlegri umhverfisvænni orku er langt umfram það sem við getum mætt. Því þurfum við að forgangsraða í hvað græna orkan fer. Landsvirkjun hefur sett sér þau viðmið að styðja í fyrsta lagi við aukna almenna notkun og innlend orkuskipti, í öðru lagi við stafræna vegferð, nýsköpun og fjölnýtingu og í þriðja lagi við framþróun núverandi viðskiptavina. Með því er Landsvirkjun að styðja við markmið Íslands um kolefnishlutleysi, stuðla að framþróun og styðja núverandi viðskiptavini í alþjóðlegri samkeppni.

Á þeim tímamótum sem Landsvirkjun stendur nú á, þar sem fjárhagsstaðan hefur aldrei verið betri og öfundsverð tækifæri framundan, þá gleymum við því aldrei að þjóðin hefur treyst félaginu fyrir hluta af auðlindum sínum. Því trausti bregst Landsvirkjun ekki.