Koffín er örvandi efni sem bætt er í suma gos- og orkudrykki. Það kemur einnig náttúrulega fyrir í kaffibaunum, kakóbaunum og telaufi. Koffín hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfið og getur aukið einbeitingu og minnkað syfju tímabundið.

Þegar við höfum innbyrt koffín þá tekur það flesta um 4-8 tíma að losna við helminginn af koffíninu úr líkamanum en lengri tíma fyrir unglinga og barnshafandi konur. Koffín er ávanabindandi og þeir sem drekka kaffi og/eða orkudrykki reglulega geta fundið fyrir fráhvarfseinkennum, t.d. höfuðverk og pirringi, ef 12-24 tímar líða frá neyslu.

Ef við neytum mikils koffíns getum við upplifað einkenni eins og ógleði, magaverk og niðurgang. Einnig kvíða, höfuðverk, örari hjartslátt, hækkaðan blóðþrýsting og svefnerfiðleika (svefnleysi og minnkuð gæði svefns). Koffínneysla á meðgöngu getur valdið vaxtarskerðingu hjá fóstri og aukið hættu á fósturláti.

Vegna þessara áhrifa hefur Matvælastofnun Evrópu gefið út viðmið fyrir neyslu koffíns fyrir mismunandi hópa (t.d. magn koffíns per kíló líkamsþyngdar). Léttari einstaklingar, eins og t.d. börn og unglingar, eru viðkvæmari.

Undanfarin ár höfum við orðið vör við mikla neyslu orkudrykkja meðal einstaklinga undir 18 ára og sýna íslenskar rannsóknir að stór hópur (31-38%) ungmenna á aldrinum 13-17 ára fer yfir viðmiðunarmörk (1,4 mg/kg) fyrir neikvæð áhrif á svefn. Að meðaltali nemur neysla orkudrykkja rúmlega helmingi af koffínneyslu framhaldsskólanema en þar á eftir koma gosdrykkir og kaffi (20% hvort).

Sumir orkudrykkir hafa verið markaðssettir sem eins konar heilsudrykkir sem gefur ranga mynd í ljósi þeirra neikvæðu áhrifa sem mikil neysla þeirra getur haft á okkur. Svefn er til að mynda öllum mikilvægur til að geta tekist á við verkefni dagsins og hefur jákvæð áhrif á ónæmiskerfi, námsgetu, andlega líðan sem og vöxt og þroska barna.

Kæru landsmenn. Verum meðvituð um ávanabindandi áhrif koffíns sem og skaðsemi ef farið er yfir mörk öruggrar neyslu. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm og samkvæmt nýlegri skýrslu Áhættumatsnefndar ætti að takmarka aðgengi þessa aldurshóps að orkudrykkjum.