Ég hef svolítið verið að velta kommentakerfum fyrir mér. Bara sem fyrirbæri. Hafa þau einhvern tímann gert einhverjum eitthvað gott? Man einhver eftir því að hafa lesið frétt á netmiðli, skrollað svo niður og lesið athugasemdir sem bæta einhverju gagnlegu við fréttina? Ég man ekki eftir mörgum slíkum tilfellum. Ég man hins vegar eftir alveg ótrúlega mörgum dæmum um að hafa lesið romsur af andstyggilegum fúkyrðum og niðurlægingu um þá sem fréttin sem snýst um. Upphaflega hugsunin var eflaust göfug, búa til vettvang fyrir umræður. Orðið var gefið laust, en reiðin og illmælgin náðu því á sitt band.

Nú er þetta orðið að einhvers konar fastri viðbót við fréttirnar. Eins og Bogi Ágústsson myndi lesa frétt í sjónvarpinu og svo yrði skipt yfir í Kringluna þar sem hljóðnema hefði verið komið fyrir á miðju gólfi og í nokkrar mínútur gætu alls konar tilfallandi gestir sagt í beinni útsendingu það sem þeim dytti í hug. Svo yrði bara skipt aftur yfir á Boga sem héldi áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Mig langar að varpa fram þeirri hugmynd að íslenskir netmiðlar taki sig til og leggi kommentakerfin niður. Ef þeir standa saman að þessu þá þarf enginn að hafa áhyggjur af því að hans miðill sé að missa smelli eða umferð á kostnað keppinautar. Þetta yrði einfaldlega sáttmáli um að hætta þessu.

Þeir sem vilja tjá sig áfram gera það. Þeir hafa úr ótal samfélagsmiðlum að velja, þeir geta skrifað í blöðin, hringt inn í símatíma útvarpsstöðvanna og jafnvel bloggað. Eða bara talið upp að tíu og slakað á.