Samherji er ekki eins og hvert annað fyrirtæki. Það er risi í íslenskum sjávarútvegi, með umsvifamikla starfsemi erlendis sem teygir sig víða, meðal annars til Afríku, eins og landsmönnum er nú kunnugt um, auk þess að vera stór hluthafi í mörgum fyrirtækjum ótengdum sjávarútvegi. Hagnaður Samherja í fyrra nam 12 milljörðum og eigið fé fyrirtækisins er 111 milljarðar. Það er því alvarlegra en ella þegar fyrirtæki af slíkri stærðargráðu er grunað um, byggt á viðamiklum gagnaleka og uppljóstrunum fyrrverandi starfsmanns, að hafa greitt mörg hundruð milljónir í mútur til namibískra ráðamanna til að tryggja sér aðgang að fiskveiðikvóta þar í landi. Of snemmt er að fella dóma um þær alvarlegu ásakanir sem hafa verið settar fram, sem eru nú til rannsóknar héraðssaksóknara, en ljóst er að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, átti fárra annarra kosta völ en að stíga tímabundið til hliðar.

Líklegt er að málið eigi eftir að skaða Samherja og mögulega önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem starfa á erlendum vettvangi. Hversu mikið, hvort sem þar er um að ræða viðskiptasambönd eða orðspor fyrirtækisins, er ómögulegt að segja fyrir um. Fjárfestar á hlutabréfamarkaði hafa viðrað sínar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin með því að selja bréf sín í félögum sem eru að stórum hluta í eigu Samherja. Þannig hefur hlutabréfaverð Eimskips lækkað um sjö prósent síðustu tvo daga en Samherji er kjölfestufjárfestir fyrirtækisins með 27 prósenta hlut. Fjárfestar óttast, með réttu eða röngu, að eignatengslin við Samherja hafi neikvæð áhrif og að útgerðarrisinn kunni að þurfa að losa um hlut sinn.

Viðbúið var að ásakanir um lögbrot Samherja yrðu notaðar af ýmsum til að ná fram öðrum og alls óskyldum pólitískum markmiðum sínum, eins og að umbylta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þótt menn greini á um hvað sé eðlilegt að útgerðarfélögin greiði í veiðigjöld þá er sjávarútvegurinn besta dæmið um atvinnugrein á Íslandi sem hefur tekist, einkum vegna hins hagkvæma fyrirkomulags fiskveiða, að ná mikilli framleiðni vinnuafls og fjárfestingar. Framferði Samherja í Namibíu er alls ótengt kvótakerfinu á Íslandi og því fráleitt að umræða um meintar mútugreiðslur hafi nokkuð með það að gera. Alvarlegra er hins vegar þegar þingmenn í einu af sínum reglubundnu upphlaupum fara fram á það, byggt á engum haldbærum rökum, að allar eignir Samherja verði kyrrsettar. Með öðrum orðum, krafa um að fyrirtækið verði knúið í gjaldþrot. Annaðhvort veit þingmaðurinn ekki hvaða afleiðingar slíkar aðgerðar hafa eða er alveg sama.

Nauðsynlegt er að Samherjamálið verði rannsakað til hlítar og að stjórnvöld veiti viðeigandi stofnunum í senn ráðrúm og fjármuni að því marki sem til þarf. Íslensk hegningarlög eru skýr. Brjóti menn ákvæði laganna um mútur, skiptir þá engu hvort brotið er framið hér á landi eða erlendis, þá er hægt að sækja þá til saka, í þessu tilfelli mögulega stjórnendur Samherja, fyrir íslenskum dómstólum. Það þýðir ekki að Ísland sé „spillingarbæli“, eins og formanni Samfylkingarinnar er mikið í mun að halda fram, enda þótt einstaka fyrirtæki, og stjórnendur þess, kunni að hafa gerst brotlegir við lög. Það kann að hljóma leiðinlega í eyrum sumra, sem þykir léttvægt að víkja til hliðar leikreglum réttarríkisins, en dómar í slíkum málum verða ekki felldir í fjölmiðlum. Sem betur fer.