Alla daga, öllum stundum tjáum við okkur með einum eða öðrum hætti. Stundum með hegðun, í afskiptaleysi og áhugasemi felast líka skilaboð, ekki síður en í tungumálinu, því táknkerfi sem er eðlilegasti samskiptamáti mannsins.

Við drekkum málið í okkur með móðurmjólkinni, erum umkringd því og lærum það sem fyrir okkur er haft. Það er svo allur gangur á því hvort lærdómurinn er samkvæmt viðurkenndum málstaðli íslenskrar málnefndar.

En örvæntið eigi, það er unnið ötullega að því að berja ambögur, þágufallssýki, málvillur, stafsetningarvillur, lélegt málfar, slettur og slangur, orðskrípi og hortitti úr ungviði landsins. Við litlar undirtektir og því umhugsunarvert hvort hægt sé að auka ræktarsemi við íslensku með öðrum hætti.

Ef okkur er sagt nógu oft að við séum léleg í einhverju förum við að trúa því. Fólk sem heyrir í sífellu að það tali „rangt mál“ sannfærist fljótt um að það sé lélegt í íslensku. Hvaða skilaboð sendir svona hegðun? Að íslenska sé ekki þeirra mál. Mörg verða sannfærð um að þau séu betri í ensku, enda engin í kringum þau að leiðrétta lélega enskukunnáttu öllum stundum.

Vegurinn til glötunar er oftast varðaður góðum ásetningi. Það á líka við um vegferð (orð hvers notkun flokkast undir ofnotað orðagjálfur) og framtíð tungumálsins okkar. Við eigum það saman og það er stærsta samstarfsverkefni þjóðarinnar að tryggja framtíð þess. Sjálfskipaðir hliðverðir tungumálsins, með hrísvönd hins opinbera málstaðals að vopni, þurfa að velta því fyrir sér hvort þeir séu að berjast fyrir fortíð eða framtíð íslenskunnar, lífi eða dauða. Það hefur aldrei verið töff að vera málfarsfasisti.