Samkvæmt orðabókarskilgreiningunni merkir orðræða tal, samræðu og jafnvel umræðu. Verst þegar merking orða og hugtaka leystist upp í valkvæða merkingarleysu þar sem skoðun er orðin staðreynd. Og öfugt er öll orðræða einskis verð.

Orðið orðræða er í raun gaslýsing enda fáheyrt að vísað sé til samtals, samræðu eða skoðanaskipta. Orðræðan heyrir sögunni til. Rétt eins og skoðanaskipti eftir að þau urðu staðreyndaskipti en slík „orðræða“ verður ekki einu sinni svo mikið sem vísir að vitrænni niðurstöðu.

Sama hvað tautar, raular, öskrar og gargar.

Áður en orðræða komst í tísku og var helst notuð í akademíunni sá Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur orðræðu fyrir sér sem „hóp af orðum sitja í hring og ræða saman af kappi yfir flösku af rauðvíni,“ eins og hún orðaði það í skemmtilegri orðræðugreiningu í kjallaragrein í DV 1997.

Þarna hlýtur orðræðan að hafa verið býsna áhugaverð. Skemmtileg jafnvel. „Þessi hugsýn er ekki svo fjarstæð,“ hélt hún áfram. „Því að í hugtakinu orðræða felst einmitt ákveðið sjálfstæði tungumálsins. Orðræða er orð yfir eins konar sérfræðingamál, en núna eru það ekki bara sérfræðingarnir sem tala málið heldur talar málið sérfræðingana.“

Úlfhildur tengdi þessa pælingu við gagnrýni sem hluta „af ákveðnu ferli – eða ákveðinni orðræðu – þar sem gagnrýnöndin ræðir viðfangsefnið útfrá fleiri en einu sjónarhorni og ,gagnrýnin‘ eða álitsdómurinn sem felldur er felst ekki síður í orðum og orðalagi en yfirlýsingum og staðhæfingum.“

Skemmtileg orðræða sem á sér varla hliðstæðu í umræðunni nú þar sem öll eru orðin sérfræðingar í öllu á eigin forsendum og skilningi og geta þannig ekki talað málið frekar en málið getur talað sérfræðingana þar sem hvorki mælandinn né orðin vita fyrir hvað þau standa.

Orðöskur er hugtak sem nær betur yfir meinta orðræðuna, sturlaðan og stjórnlausan heimsku- og illgirnivaðalinn sem hefur fundið sér víðan farveg um skólplagnir athugasemdakerfanna og engu skilar nema meiri skít og áleitnum spurningum um hversu mikið sé að og yfirleitt að gerjast í höfðinu á fólki, svo dæmi sé tekið, sem bara verður að „skoða“ Semu Erlu Serdar, eðli hennar og hvaðan hún kemur. „Og hvað þú ert að gera á Íslandi.“

Sema Erla fæddist á Akureyri og var skírð og fermd í Bústaðakirkju. Hvað er við það að athuga?

Er ekki ráð að reyna að leiða orðin saman í huggulegt rauðvínsspjall og lyfta um leið sjálfum sér, umræðunni og meintri orðræðu á aðeins hærra plan*?

* svið; stig; flötur, grunnur; torg.