Haustið 2018 var haldinn blaðamannafundur í Austurbæjarskóla þar sem kynnt var metnaðarfull aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum til ársins 2030. Þetta var ríkisstjórn sömu flokka og fengu áframhaldandi stuðning frá þjóðinni í síðustu alþingiskosningum til þess að starfa saman önnur fjögur ár.

Það var mjög eftirminnilegt að ráðherrar komu fótgangandi á fundinn frá Stjórnarráðinu og yfir Skólavörðuholtið þennan milda haustdag. Þeir skildu bensínbílana eftir við ráðuneytin til þess að sýna að þeim var alvara. Fundarstaðurinn, Austurbæjarskóli, var valinn sérstaklega með það í huga að hann þótti mjög táknrænn staður fyrir þau skilaboð sem ráðherrarnir höfðu að færa þjóðinni; að ráðast skyldi í orkuskipti í samgöngum. Austurbæjarskóli var nefnilega fyrsta byggingin til þess að fá hitaveitu árið 1930, í því sem við höfum kallað orkuskiptunum hinum fyrri. Hitaveituafrek Íslendinga hefur síðan sparað samfélaginu milljarðatugi í innflutningi á olíu til húshitunar og í losun á CO2 og verið fyrirmynd um allan heim í nýtingu á sjálfbærri orku.

Í Austurbæjarskóla var kynnt metnaðarfull stefna ríkisstjórnarinnar um að bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, það er að segja bensín- og dísilbílar, yrðu ólöglegir frá með árinu 2030. Til þess að tryggja að orkuskiptin gætu farið fram ætlaði ríkisstjórnin að ráðast í markvissa uppbyggingu á innviðum. Síðast en ekki síst yrði ívilnunum fyrir rafbíla og aðra vistvæna bíla framhaldið. Ekkert skyldi standa í vegi fyrir því að rafvæðing bílaflotans gengi hratt og vel fyrir sig.

Svo líða rúmlega þrjú ár. Þá birtist eftirfarandi inngangur að forsíðufrétt í Fréttablaðinu: „Búist er við að síðasti rafmagnsbíllinn með skatt­a­ívilnunum stjórnvalda seljist upp um mitt ár, en kvótinn nemur 15 þúsund bílum.“ Framkvæmdastjóri FÍB harmar þetta og segir að allan fyrirsjáanleika skorti í íslenskum stjórnmálum. Eins og fram kom á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, COP26, eru þjóðir heims, þar á meðal Íslendingar, langt frá því að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum. Varað er við alvarlegum afleiðingum þessa hægagangs.

Á sama tíma eru lagðar fram í norska fjárlagafrumvarpinu 2022 fjölþættar breytingar til að ljúka orkuskiptum og auka tekjur ríkisins af ökutækjum á ný. Þar er meðal annars lagt til að öllum stuðningi við tengiltvinnbíla, sem felst meðal annars í lægri bifreiðagjöldum, verði hætt og stefnt að því að allir nýskráðir bílar verði rafmagnsbílar árið 2025.

Erum við Íslendingar alveg úti að aka?