Það er ekki heillavænleg þróun að ríkið eitt flytji fréttir. Enginn kærir sig um að ríkið fjalli eitt um málefni stofnana þess, sakamál sem það rekur gegn borgurum sínum, um aðstæður í fangelsum þess og sjúkrahúsum.

Nú þegar hin þrjátíu og fjögurra ára gamla fréttastofa Stöðvar 2 kastar inn handklæðinu, finnst menntamálaráðherra loksins „skynsamlegt að fara að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði“, líkt og hún lét hafa eftir sér í viðtali við Morgunblaðið fyrr í vikunni.

Um stöðu einkarekinna fjölmiðla hér á landi, ofan í áhrif farsóttarinnar á þann rekstur líkt og annan í landinu, þarf ekki að fjölyrða. Staðan er vond og hún hefur verið það lengi. Ástæður þess að illa gengur eru einkum tvær, líkt og margoft hefur verið rakið fyrir daufum eyrum ráðamanna.

Annars vegar má nefna ótrúlega fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og hins vegar breytt umhverfi fjölmiðla, þar sem risar á borð við Google og Amazon ráða ríkjum.

Þetta eru í sjálfu sér ekki fréttir fyrir neinn, nema að því er virðist einna helst fyrir menntamálaráðherra sem hefur allar götur frá því að hún settist í stól ráðherra lofað öllu fögru í málefnum fjölmiðla.

Sterkir ríkisfjölmiðlar starfa í mörgum löndum í kringum okkur. Þeir búa hins vegar flestir yfir sterkari sjálfsmynd en RÚV. Þeir leitast fremur við að lyfta hinum frjálsu miðlum upp en keppa við þá um lögguskúbb, eins og RÚV hefst að. Þeir eru reknir af opinberu fé en treysta ekki á auglýsingatekjur. Sá markaður er látinn einkareknum miðlum eftir og víða er það jafnvel ekki látið duga heldur þeim einnig veittur ríkisstyrkur til rekstrarins.

Þessu er öfugt farið á Íslandi. Hér fær ríkisfjölmiðillinn frítt spil á auglýsingamarkaði og rífleg framlög á ári hverju.

Ráðherra hefur nýtt hvert tækifæri til að ræða stöðu hinna einkareknu fjölmiðla og fyrirferð ríkismiðilsins á auglýsingamarkaði í ójafnri samkeppni við frelsið. Hún hefur sagt að sennilega væri RÚV best borgið á fjárlögunum einum saman. Hún hefur boðað og lagt fram fjölmiðlafrumvarp sem kveður á um styrki til einkarekinna fjölmiðla.

Dýrmætum tíma í dauðastríði fjölmiðlanna ver ráðherrann hins vegar í að rífast um útfærslur við „samherja“ sína í meirihlutasamstarfinu. Á meðan bólar ekkert á styrkjunum. Ekkert hefur verið gert til að rétta samkeppnisstöðuna og engu verið breytt í lagaumhverfi erlendra netrisa hér á landi.

Orðaflaumi ráðherra þurfa að fylgja efndir. Hún gerði einfaldlega of lítið og of seint. Ef ráðherrann vill ekki að frjálsir fjölmiðlar deyi út á hennar vakt, þarf eitthvað mikið að gerast – og það strax.

Á meðan verðum við hin sem viljum frjálsa fjölmiðla og fjölbreytni í umfjöllun um samfélagsmál að taka upp veskið og greiða fyrir þjónustu fréttastofu Stöðvar 2. Megi hún þrífast, vaxa og dafna, eða í versta falli lifa af þangað til pólitíkin rankar við sér.