Það er júní 2020. Breskt samfélag hefur verið í sóttkví í þrjá mánuði vegna kórónaveirufaraldursins. Verslanir, skólar, skrifstofur; öllu hefur verið lokað. En nú horfir til betri vegar. Fjöldi nýrra smita er óverulegur og Boris Johnson forsætisráðherra hefur fyrirskipað kröftuga enduropnun samfélagsins. Ráðgáta varpar hins vegar skugga á gleðina. Eitthvað undarlegt er á seyði í Leicester. Þrátt fyrir að í borginni gildi sömu sóttvarnareglur og annars staðar fjölgar smitunum á ógnarhraða. Hvað veldur?

Átta árum fyrr, í Bangladess, á sér stað atburður sem við fyrstu sýn virðist ekki eiga neitt sameiginlegt með óvæntri Covid-hópsýkingu í Leicester.

Það er 24. apríl 2013. Mörg þúsund starfsmenn fataverksmiðju í útjaðri höfuðborgarinnar Dhaka mæta til vinnu. Stór sprunga hefur myndast í átta hæða Rana Plaza byggingunni. Starfsfólk biðst undan því að fara inn í verksmiðjuna þar sem fatnaður er framleiddur fyrir alþjóðlegar tískuvörukeðjur. En í heimi síbreytilegrar tísku er hraði fyrir öllu. Yfirmennirnir hóta því að þeir sem ekki mæti verði hýrudregnir um heil mánaðarlaun.

Rétt fyrir klukkan níu hrynur byggingin. Mahmudul Hridoy starfar á sjöundu hæð. Hann hafði gift sig þrem dögum fyrr og átti von á sínu fyrsta barni. Hann opnar augun fastur í braki hússins. Honum til furðu blasir við honum besti vinur hans, Faisal, sem starfar á annarri hæð. Hann er dáinn; einn af 1.134 sem létust í einu mesta iðnaðarslysi sögunnar. „Ég mun aldrei geta fyrirgefið það hvernig höfuðkúpa hans opnaðist fyrir augunum á mér,“ sagði Hridoy.

Rana Plaza harmleikurinn markaði tímamót. Ógerlegt var lengur að líta fram hjá þeim mannlega fórnarkostnaði sem hlýst af ásælni okkar í ódýran tískufatnað.

En hvað hefur iðnaðarslys í Bangladess að gera með Covid-smit í Leicester?

Leicester átti sér opinbert leyndarmál. Í borginni eru starfræktar á bilinu þúsund til fimmtán hundruð fatagerðir. Í mörgum þeirra voru starfsskilyrði ekki mikið betri en í Bangladess. Samkvæmt rannsókn blaðamanns Financial Times hafði fataiðnaðurinn í borginni „fjarlægst“ vinnulöggjöf og starfaði í eigin neðanjarðarhagkerfi þar sem litið var framhjá svívirðilegri misnotkun á vinnuafli í hálfgerðum þrælabúðum. Þegar heimsfaraldurinn brast á var starfsfólki fatagerðanna gert að halda áfram vinnu eins og ekkert hefði í skorist. Úr varð hópsýking sem leiddi til þess að 360.000 manna borg var skellt í lás á sama tíma og aðrir landshlutar risu úr Covid-dvala.

Þá vindur sögunni hingað heim: Það er febrúar 2018. Lögregla rannsakar þjófnað við Smiðshöfða. Í ljós kemur að í iðnaðarhúsnæði við götuna búa á þriðja tug erlendra verkamanna við hættulegar aðstæður. Búið er að smíða utan um þá svefnkassa úr spónaplötum, engar brunavarnir eða flóttaleiðir eru til staðar og eldhætta er mikil.

Í vikunni var eigandi starfsmannaleigunnar sem hafði umrædda verkamenn á sínum snærum dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stofna lífi þeirra í bráða hættu.

Skýr skilaboð

Sannleikurinn um raunverulegt verð ódýrs vinnuafls blasti við veröldinni fyrir átta árum í Bangladess. Ásókn okkar í skynditísku minnkaði þó ekki heldur jókst hún svo mjög að þrælabúðir blómstruðu fyrir allra augum í Leicester. Það var ekki fyrr en starfsemin olli kaupendum sjálfum ónæði í Covid-faraldrinum að gripið var í taumana.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri fagnaði dómnum yfir eiganda starfsmannaleigunnar og sagði hann hafa fælingarmátt. „Þarna eru mjög skýr skilaboð.“

En í málinu felast önnur skilaboð, skilaboð til okkar allra: Þótt við teljum okkur gera góð kaup er alltaf einhver sem borgar brúsann.