Það kom á óvart að Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, mun draga sig í hlé þegar kjörtímabilið rennur sitt skeið á enda, eins og hann tilkynnti um í gær. Fram að því ætluðu Eyþór og Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi að keppa um fyrsta sæti flokksins í leiðtogaprófkjöri. Það hefði orðið spennandi barátta. Fyrir áhugafólk um stjórnmál er synd að af henni hafi ekki orðið.

Eflaust leitar íhaldssamari armur Sjálfstæðisflokksins, sem horfir minna til þéttingu byggðar og fjölbreyttari samgöngumáta, nú að frambærilegum frambjóðanda í oddvitasætið til að keppa við Hildi. Enginn af borgarfulltrúum flokksins á möguleika á að sigra Hildi í prófkjöri eftir að Eyþór steig til hliðar. Það verður hægara sagt en gert að sannfæra fólk sem er í góðum störfum að láta á það reyna að taka við flokknum en sitja í kjölfarið áhrifalaust í minnihluta í fjögur ár ef fram fer sem horfir. Það er að minnsta kosti fátt sem bendir til að meirihlutinn falli eins og sakir standa.

Eins og þekkt er vill stjórn Varðar, þvert á vilja fjölda Sjálfstæðismanna, halda leiðtogaprófkjör en að fámennur hópur raði í önnur sæti. Fulltrúaráðið í Reykjavík á blessunarlega eftir að samþykkja ákvörðunina. Nú þegar Hildur stendur ein eftir í leiðtogaprófkjöri eru auknar líkur á hefðbundnu prófkjöri fyrir öll sætin.

Vonandi verður öllum Sjálfstæðismönnum í borginni boðið að taka þátt í prófkjöri í stað þess að það einskorðist við félagsmenn í Verði. Það myndi nefnilega leiða til einsleitari sjónarmiða við kjörborðið. Sjónarmið almennra flokksmanna eru fjölbreyttari en þeirra sem eiga sæti í Verði. Sú ákvörðun gæti haft í för með sér að hinn almenni Sjálfstæðismaður leiti á önnur mið og uppskeran verði rýrari í borgarstjórnarkosningum í vor.

Hugmynd Varðar um að stilla upp lista í stað þess að fara í hefðbundið prófkjör var misráðin. Prófkjör eru mikilvægur vettvangur fyrir frambjóðendur til að kynna sig sem kemur flokknum til góða þegar kjósa á lista í borgarstjórn í vor. Fólk er jú ekki hrifið af því að kjósa fólk sem það þekkir ekki. Miðstýring, meðal annars við að raða á lista, er slæm. Nú er nokkuð stór hópur borgarfulltrúa, sem Vörður handvaldi, algerlega óþekktur á meðal borgarbúa eftir fjögur ár í starfi og fáir hafa áhuga á að kjósa.